Home / Fréttir / Þyskaland: Hriktir í stjórnarsamstarfinu vegna örlaga njósnaforingja

Þyskaland: Hriktir í stjórnarsamstarfinu vegna örlaga njósnaforingja

Hans-Georg Maaßen og Horst Seehofer.
Hans-Georg Maaßen og Horst Seehofer.

Enn á ný ríkir óvissa um framtíð ríkisstjórnar Angelu Merkel í Þýskalandi, samsteypustjórnar kristilegu flokkanna (CDU/CSU) og Jafnaðarmannaflokksins (SPD). Nú er það vegna þess að SPD krefst þess að Hans-Georg Maaßen, yfirmaður þýsku öryggis- og leyniþjónustunnar, BfV, verði rekinn.

Maaßen lét fyrr í mánuðinum nokkur umdeild ummæli falla vegna mótmælanna gegn útlendingum í borginni Chemnitz í Saxlandi. Gagnrýnendur hans segja að þau séu hlutdræg í þágu mótmælendanna.

Meðal annars dró forstjóri BfV í efa sannleiksgildi myndskeiðs sem virtist sýna öfga-hægrimenn ráðast á fólk með útlent yfirbragð á götum borgarinnar. Hann skýrði ummælin síðar og sagði að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hefðu sýnt ábyrgðarleysi í frásögnum um myndskeiðið áður en sannleiksgildi þess hefði verið staðfest.

Jafnaðarmenn tóku þessum ummælum illa og sögðu Maaßen draga taum öfga-hægriafla. Stjórnarandstæðingar sökuðu forstjórann auk þess um að sýna ábyrgðarleysi með því að gera lítið úr óöldinni í Chemnitz.

Forystumenn SPD hafa nú samþykkt sérstakan fund með fulltrúum CDU og CSU þriðjudaginn 18. september til að ræða framtíð Maaßens. Andrea Nahles, formaður SPD, hefur verið ómyrk í máli um Maaßen. Um helgina sagði hún að hann yrði að fara og mundi fara.

Lars Klingbeil, framkvæmdastjóri SPD, tók einnig af skarið um að flokkur sinn sætti sig ekki við neitt annað og minna en að Maaßen yrði rekinn.

Meðal kristilegra eru ekki allir á einu máli um að kanslarinn eigi að láta SPD ráða í þessu máli.

„Nú er tímabært fyrir þá að hætta þessu tali“ sagði Thomas Strobl, einn fimm varaformanna CDU við Bild. „[SPD] ætti að hætta allri naflaskoðun og taka til við að sinna landstjórninni að einhverju gagni.“

Alexander Mitsch, formaður áhrifamikils þrýstihóps innan CDU, sagði: „Frú Merkel getur ekki látið undan þessum þrýstingi vinstrisinna. Það væri hrikalegt ef hún fórnaði Maaßen til að halda í eigin völd.“

Horst Seehofer, innanríkisráðherra og leiðtogi CSU í Bæjaralandi, er yfirmaður Maaßens og hefur staðið fast að baki honum.

Die Welt segir mánudaginn 17. september að Merkel sjálf búi sig undir að gefa Maaßen náðarhöggið. Margir hafa túlkað orð Maaßens sem beina árás á kanslarann sem nefndi mynskeiðið þegar hún ræddi atburðina í Chemnitz.

Die Welt segir að Merkel telji forstjórann hafa farið út fyrir valdsvið sitt með því að blanda sér í lifandi stjórnmálaumræður.

Kanslarinn er þó sögð milli steins og sleggju. Reki hún Maaßen kann það að leiða til átaka við Seehofer innanríkisráðherra. Leyfi hún Maaßen að sitja kann SPD að slíta stjórnarsamstarfinu.

Þetta hefur allt leitt til nýrra vangaveltna um að þýska ríkisstjórnin sé að springa. Klingbeil neitaði að svara fréttamanni ZDF-sjónvarpsstöðvarinnar beint þegar hann var spurður hvort SPD ætlaði að slíta samstarfinu yrði ekki farið að óskum flokksins.

Spurningar um framtíð stjórnarsamstarfsins hafa einnig verið lagðar fyrir Merkel og Seehofer undanfarna daga. Bæði segjast þau ekki efast um að stjórnin sitji áfram.

Stjórnarmyndunin tók Merkel fimm mánuði og innan nokkurra vikna hófst deila um útlendingamál og landamæravörslu innan hennar. Í júní hótaði Seehofer öllu illu fengi hann ekki sitt fram við gæslu landamæranna. Hann dró síðan í land.

Um þessar mundir er ár frá því að kosið var til þýska þingsins. Segja má að síðan hafi ólga einkennt þýsk stjórnmál, ekki síst vegna útlendingamálanna. Í kosningunum varð flokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) þriðji stærsti þingflokkurinn í krafti harðrar útlendingastefnu sinnar.

 

Heimild: local.de

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …