Home / Fréttir / Þýskaland: Hertar aðgerðir boðaðar gegn útlendingum – ekki bann við búrkum

Þýskaland: Hertar aðgerðir boðaðar gegn útlendingum – ekki bann við búrkum

 

Kona í búrku,
Kona í búrku,

Miklar umræður hafa verið í Þýskalandi um hertar aðgerðir yfirvalda gegn múslímum eftir að sagt var frá því í blaðinu Tagesspiegel miðvikudaginn 10. ágúst innanríkisráðherrar í sambandslöndum undir stjórn kristilegra stjórnmálamanna hefðu rætt tillögur sem fela meðal annars í sér að konum verði bannað að klæðast búrkum, það er hylja sig frá toppi til táar svo að aðeins sjáist í augun. Innanríkisráðherra Þýskalands sagði fimmtudaginn 11. ágúst að bann við búrkum bryti gegn stjórnarskránni.

Thomas de Maizière, innanríkisráðherra Þýskalands, kynnti hertar aðgerðir gegn útlendingum og hryðjuverkamönnum á blaðamannafundi í Berlín fimmtudaginn 11. ágúst og gekk í sumu tilliti skemmra í tillögum sínum en innanríkisráðherrar einstakra sambandslanda höfðu óskað.

Ein af tillögum ráðherrans er að auðveldara verði að brottvísa þeim farandmönnum sem gerast brotlegir við lögin eða liggja undir grun um lögbrot. Það verður sett í útlendingalögin ákvæði um heimild til að brottvísa þeim sem „skapa almannahættu“.

Þá verður komið á fót sérstökum aðgerðarhópi innan lögreglunnar til að hraða meðferð á málum erlendra afbrotamanna sem bíða brottvísunar. Varnir gegn tölvuárásum verða efldar innan nýrrar deildar lögreglunnar, ZITiS. Deildin hefur það hlutverk að aðstoða aðrar deilir lögreglunnar og öryggissveitir við að berjast gegn glæpum og hryðjuverkum í netheimum. Hún tekur til starfa með 400 manna starfsliði í byrjun næsta árs. Lögð verður áhersla á að fylgjast með því sem gerist á skuggahlið netheima en talið er að ungi maðurinn sem varð níu manns að bana í München 22. júlí hafi keypt skotvopnið á skuggahlið netsins.

Þá verður eftirlit með myndavélum aukið á þýskum brautarstöðvum.

Á blaðamannafundinum hvatti innanríkisráðherrann til þess að fulltrúar stjórnvalda og þýsku læknasamtakanna hittust til að ræða hvernig virða mætti þagnarskyldu lækna og draga jafnframt úr hættunni á að skjólstæðingar læknanna sköpuðu hættu fyrir almenna borgara.

Ráðherrann sagði erfitt að verða við kröfum um að banna konum að klæðast búrkum vegna stjórnarskrárákvæða. „Ekki er unnt að banna allt sem maður er á móti og ég er á móti því að konur séu í búrkum.“

Sigmar Gabriel, formaður Jafnaðarmannaflokksins (SPD), samstarfsflokks kristilegra í ríkisstjórn Þýskalands, lýsti ánægju með áform innanríkisráðherrans. SPD-menn væru reiðubúnir til að ræða allt sem stuðlaði að auknu öryggi. Hann fagnaði því að Thomas de Maizière gengi ekki eins langt og ýmsir flokksbræður hans hefðu viljað.

Tagesspiegel birti orðrétta kafla úr tillögunum sem innanríkisráðherrar einstakra sambandslanda sendu de Maizière:

„Trúfrelsi er meðal grundvallarréttinda. Á hinn bóginn er ekki unnt að þola trúarlega öfgahyggju og misnotkun trúarlegra tákna í Þýskalandi. […]

Við semjum ekki um tjáningarfrelsi. Fordæmingar á tungumáli okkar og einkum hatursorðsendingar á samfélagsmiðlum verða ekki liðnar. Við verðum að snúa að nýju til borgaralegra dyggða okkar. Virðing, kurteisi og gagnkvæm tillitssemi er grundvöllur friðsamlegrar sambúðar.“

Í tillögunum er gert ráð fyrir að trúnaðarsamband læknis og sjúklings verði takmarkað á þann veg að læknum verði heimilað að greina lögreglunni frá grunsemdum sínum um að sjúklingur ætli að fremja glæp.

Tvö nýleg þýsk dæmi eru um árásir – skotárás í München sem varð tíu manns að bana og sjálfsmorðssprengingu í Ansbach – þar sem ódæðismennirnir höfðu áður leitað til læknis vegna geðtruflana.

Þýsku læknasamtökin (BÄK) telja að tillögur sem skerða þagnarskyldu lækna brjóti gegn stjórnarskrá Þýskalands. Spenna vegna öryggismála eigi ekki að leiða til þess að menn hrapi að vanhugsuðum pólitískum eða lagalegum lausnum. De Maizière vill, eins og áður sagði, viðræður stjórnvalda og læknasamtaka um þessi mál.

Miklar umræður urðu um trúnaðarsamband læknis og sjúklings í Þýskalandi í fyrra eftir að Andreas Lubitz, flugmaður hjá Germanwings, flaug vél með 150 manns um borð inn í fjall í frönsku Ölpunum. Lubitz var þunglyndur og hafði margsinnis leitað læknis og hafði verið ráðlagt að leggjast inn á geðdeild til að fá lækningu.

Innanríkisráðherrarnir úr flokkum kristilegra demókrata (CDU) og kristilegra sósíalista (CSU) vísa til nýlegra árása í Suður-Þýskalandi þar sem einstaklingar í tengslum við íslamista komu við sögu en einnig til ofbeldis sem rekja megi til öfgamanna til hægri og vinstri. Tagesspiegel segir tillögurnar hins vegar einkum beinast gegn útlendingum.

„Stjórnlaus straumur innflytjenda og vegna hans tengsl við smyglara á fólki skapa óróa meðal landsmanna og einfalda aðferðina fyrir glæpamenn og öfgafulla íslamska ofbeldismenn við að laumast inn í Evrópu,“ segir í tillögunum.

Lagt er til að lögreglumönnum verði fjölgað, vald leyniþjónusta aukið og leiðir til brottvísunar á fólki verði einfaldaðar. Þá er einnig lagt til að horfið verði frá tvöföldum ríkisborgararétti.

„Í tvöföldum ríkisborgararétti felst mikil hindrun fyrir aðlögun,“ segir í tillögunum. „Við leggjumst gegn þessari tvískiptu hollustu. Við mundum ráðleggja hverjum þeim sem vill tengjast stjórnmálastarfi erlendra ríkisstjórna að yfirgefa Þýskaland. Við hvetjum til þess að fólk velji á upplýstan hátt að aðhyllast gildi frjálsa, lýðræðislega réttsrríkisins okkar.“

Þátttaka þýskra borgara í stjórnmálastarfi annarra landa hefur verið töluvert til umræðu undanfarnar vikur eftir að þúsundir stuðningsmanna Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta hófu útifundi í þýskum borgum til að kynna málstað forsetans eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi föstudaginn 15. júlí. Þá hefur verið ráðist á kaffihús í Þýskalandi sem litið er á sem samkomustaði Gülens sem Erdogan segir að standi að baki aðförinni að sér.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …