Home / Fréttir / Þýskaland: Hafnaði handabandi – fær ekki ríkisborgararétt

Þýskaland: Hafnaði handabandi – fær ekki ríkisborgararétt

48024462_303

Múslima sem sótti um ríkisborgararétt í Þýskalandi og stóðst próf vegna umsóknarinnar með ágætum var hafnað þegar hann neitaði að staðfesta móttöku réttinda sinna með því að taka í hönd konu sem afgreiddi mál hans.

Þessi niðurstaða var staðfest af áfrýjunardómara föstudaginn 16. október.

Um er að ræða 40 ára líbanskan lækni sem kom árið 2002 til Þýskalands. Hann sagðist ekki heilsa konu með handabandi af trúarástæðum.

Stjórnsýsludómstóll í sambandslandinu Baden-Württemberg sagði að sá sem neitaði handabandi vegna „bókstafshollustu við menningu og gildi“ þar sem kona er talin boða „hættu á kynferðislegri freistingu“ hafnaði með því „aðlögun að þýskum lífsháttum“.

Læknirinn stundaði nám í Þýskalandi og starfar nú sem yfirlæknir í klíník. Hann sótti um ríkisborgararétt árið 2012 og þess vegna undirritaði hann skjal um hollustu sína við þýsku stjórnarskrána og gegn öfgahyggju. Hann fékk hæstu einkunn á prófi sem lagt er fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt.

Samþykkt var að hann fengi ríkisborgararéttinn en þegar að því kom að hann fengi ríkisborgarabréfið afhent neitaði hann að taka í höndina á konunni sem ætlaði að afhenda honum það. Hún afhenti því ekki skjalið og hafnaði umsókninni.

Læknirinn sagðist hafa lofað eiginkonu sinni að heilsa ekki annarri konu með handabandi.

Fyrst fór hann með mál sitt fyrir undirrétt í Stuttgart og tapaði því. Þá áfrýjaði hann til stjórnsýsluréttar Baden-Württemberg (VGH). Eftir að hafa tapað þar getur læknirinn skotið málinu til Sambandsstjórnssýsluréttarins, það er æðsta dómstigsins í Þýskalandi á sviði stjórnsýsluréttar.

VGH-dómarinn sagði handaband aldagamla, almenna orðlausa athöfn til að heilsast og kveðjast án tillits til kyns þeirra sem hlut ættu að máli. Dómarinn sagði að handaband væri einnig lagalega táknrænt, í því fælist að samningur hefði tekist.

Handabandið ætti því „djúpar félagslegar, menningarlegar og lagalegar rætur sem móta hvernig við högum lífi okkar saman,“ sagði dómarinn. Hver sá sem neitaði handabandi með vísan til kynferðis gengi gegn jafnréttinu sem mótaðist af þýsku stjórnarskránni. Í þessu tilviki hefði höfnun karlmannsins einnig ýtt undir að virða bæri „salafískt viðhorf“ til samfélagslegra samskipta milli karla og kvenna. Engu breytti þótt karlinn segðist nú ekki heldur taka í hönd karla. Þá taldi dómarinn það leikbragð í stöðunni að karlinn segðist nú vilja árétta jafnræði karla og kvenna.

Í vörn karlsins var bent á að nú um stundir væri varað við handabandi til að hindra útbreiðslu kórónuveirunnar. Dómarinn sagðist fullviss um að veirunni tækist ekki að útrýma handabandinu.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …