
Hans-Georg Maaßen, fyrrverandi forstjóri njósna- og öryggislögreglu Þýskalands, hefur verið vikið tímabundið frá störfum af innanríkisráðherranum vegna ýmissa atvika sem þykja ekki hæfa manni sem hefur gegnt svo háu embætti.
Horst Seehofer innanríkisráðherra sagði mánudaginn 5. nóvember að hann hefði vikið Maaßen úr embætti vegna „óviðurkvæmilegra ummæla“ í kveðjuræðu sem njósnaforinginn fyrrverandi flutti á fundi fulltrúa njósnaforingja erlendra samstarfsríkja Þýskalands.
Til þessa hefur Seehofer staðið með Maaßen í hremmingum hans frá því að hann var sakaður um að snúast gegn Angelu Merkel kanslara með ummælum um öfgamótmælendur gegn útlendingum í borginni Chemnitz. Ráherrann sagðist ekki lengur geta staðið með Maaßen þar sem „samvinna væri reist á gagnkvæmu trausti“. Ummælin hefðu rofið þetta traust.
Í kveðjuræðunni talaði Maaßen um „róttæk vinstrisinnuð öfl“ innan Jafnaðarmannaflokksins (SPD), annars þýska ríkisstjórnarflokksins. Hann sagði þessi öfl hefðu magnað upp umdeild orð sín um mótmælin í Chemnitz í ágúst. Urðu miklar deilur um þau í ríkisstjórninni og var Maaßen þá vikið úr forstjórastóli njósnastofnunarinnar.
Hann gagnrýndi einnig útlendingastefnu þýsku stjórnarinnar og sagði hana „einfeldningslega og vinstrisinnaða“.
Þá hafa fjölmiðlar birt óstaðfestar fréttir um að hann hafi komið viðkvæmumn upplýsingum um íslamska öfgamenn til flokksins Alternative für Deutschland (AfD), flokks sem berst fyrir harðari útlendingastefnu og gegn múslimum.
Fyrst eftir brottvikninguna úr forstjórastarfinu vildi Seehofer gera Hans-Georg Maaßen að sérlegum aðstoðarmanni sínum. Vegna þess hve það sætti þungri gagnrýni fékk hann ráðgjafastöðu í innanríkisráðuneytinu. Nú hefur hann verið sviptur henni. Seehofer þykir hafa sýnt litla dómgreind í málinu til þessa og liggur undir vaxandi gagnrýni.