Home / Fréttir / Þýskaland: Bandaríkjaher varar við töfum á umferð vegna hergagnaflutninga

Þýskaland: Bandaríkjaher varar við töfum á umferð vegna hergagnaflutninga

 

Skriðdreki á leið um borð í flutningaskip.
Skriðdreki á leið um borð í flutningaskip.

Bandaríkjaher hefur sent tilkynningar til stjórnvalda í nokkrum þýskum sambandslöndum um að búast megi við umfangsmikilli umferð þungra bryndreka á leið þeirra til hernaðarlega mikilvægra staða í austurhluta Evrópu og Eystrasaltslöndunum. Hér sé um að ræða framkvæmd á ákvörðun NATO sem ber heitið Operation Atlantic Resolve.

Sendir verða 3.300 hermenn frá Fort Hood í Texas og með þeim 2.500 tæki yfir Atlantshafið. Þeir koma í stað hersveitar sem snýr aftur til Fort Riley í Kansas.

Tækin verða sett á land í Antwerpen í Belgíu og hefst flutningur þeirra innan fáeinna daga þvert yfir Evrópu. Liðs- og tækjaflutningunum er líkt við á æfingu á aðgerðum sem grípa yrði til vegna flutninga kæmi til átaka á meginlandi Evrópu.

Hermenn leggja nótt við dag til að mæla hve hratt er unnt að framkvæma aðgerð af þessu tagi. Í sumum tilvikum er farið á fljótum og skipaskurðum frá Antwerpen til Mannheim í Þýskalandi. Þannig er unnt að nýta aðrar leiðir en á vegum eða í járnbrautalestum. Frá Mannheim verður hins vegar allt flutt landveg austur á bóginn.

Meðal þess sem um er að ræða má nefna 87 Abrams-skriðdreka, um 140 Bradley bryndreka, 18 Paladin-sprengjuvörpur og 395 önnur belta-farartæki. Allt verður þetta flutt í járnbrautalestum til mismunandi staða í Eystrasaltsríkjunum, Póllandi, Rúmeníu, Búlgaríu og Ungverjalandi.

Um 1.000 farartæki eru á hjólum og hefur Þjóðverjum verið tilkynnt að 280 þeirra verði á vegum Þýskalands, nokkrir bílar í hverjum hópi. Þetta kunni allt að tefja fyrir umferð á vegum og brautarteinum.

Samhliða þessu verða bandarískir hermenn í stöðvum í Bæjarlandi fluttir til þátttöku í æfingu í Póllandi og Eystrasaltslöndunum dagana 3. til 15. júní en Bandaríkjamenn leggja til 12.500 hermenn af 18.000 sem taka þátt í æfingunni.

Að mestu bandarískir hermenn eru að baki Operation Atlantic Resolve. Með aðgerðinni er ætlunin að minna á hernaðarmátt NATO skammt frá landamærum Rússlands í Evrópu. Rekja má ákvörðunina um þetta til þess þegar Rússar innlimuðu Krímskaga og tóku hann af Úkraínu árið 2014. Óttuðust þá margir að það væri aðeins upphaf valdbeitingar af hálfu Rússa til að leggja undir sig lönd sem voru áður innan Sovétríkjanna eða lutu ofurvaldi þeirra.

Heimild: Defense News

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …