Home / Fréttir / Þýskaland: Afnám refsiaðgerða gegn Rússum í stjórnarmyndunarviðræðum

Þýskaland: Afnám refsiaðgerða gegn Rússum í stjórnarmyndunarviðræðum

eu-sanctions

Útflutningur ESB-ríkja til Rússlands hefur dregist saman um 30 milljarða evrur síðan þau gripu til refsiaðgerða gegn Rússum. Þyngst leggst byrðin á Þýskaland. Rússar standa hins vegar betur að vígi efnahagslega en í langan tíma. Á þessum orðum hefst frétt á vefsíðu þýska blaðsins Die Welt mánudaginn 9. október.

Blaðið segir að nú þegar stjórnarmyndunarviðræður hefjist í Þýskalandi milli kristilegra, frjálsra demókrata og græningja muni ólík viðhorf til utanríkismála skipta miklu. Þar takist á ólík sjónarmið flokkanna í garð Rússa.

Blaðið segir að forystumenn frjálsra demókrata (FDP) hafi haft í frammi harða gagnrýni á stefnu þýskra yfirvalda og ESB gagnvart Rússum. Christian Lindner, formaður FDP, vill bæta samskiptin við Rússa. Það verði að auðvelda Vladimír Pútín að breyta um eigin stefnu án þess að hann tapi andlitinu. Angela Merkel (CDU) vill hins vegar halda fast í refsistefnuna gagnvart Rússum.

Frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga í mars 2014 hefur ESB gripið til ýmissa refsiaðgerða gegn Rússum. Þar má til dæmis nefna einskonar bannfæringu háttsettra Rússa í stjórnmálum, stjórnkerfinu og viðskiptalífinu. Útflutningsbannið til Rússlands vegur þó þyngra en um það má deila hver áhrif þess hafa verið, segir í Die Welt.

Blaðið vitnar í úttekt á vegum austurrískrar rannsóknastofnunar á sviði viðskiptamála, Wifo, á efnahagslegum áhrifum aðgerðanna á einstök ESB-ríki. Úttektin var unnin á vegum ESB-þingsins og þar kemur fram að aðgerðirnar hafi kostað ESB-ríkin samtals um 30 milljarða evra.

Útflutningur frá ESB til Rússlands nam 120 milljörðum evra á ári árið 2013 en 72 milljörðum árið 2016. Í því sambandi verði að hafa í huga að olía og rúblan hafi fallið í verði. Wifo segir að umtalsverðan hluta þessa samdráttar megi rekja til refsiaðgerðanna.

Mestur er samdrátturinn í útflutningi Þjóðverja, 11,1 milljarður evra, síðan koma Pólverjar, Bretar og Frakkar.

Sé litið á útflutning til Rússlands sem hlutfall af heildarútflutningi viðkomandi lands sést að Kýpverjar hafa tapað meira en þriðjungi af viðskiptum sínum við Rússa, Grikkir 23% og Króatar 21%. Fyrir Þjóðverja jafngildir 11,1 milljarður evra samtals 13,4% samdrætti í viðskiptum þeirra við Rússa miðað við það sem áður var.

Die Welt segir að með þessum aðgerðum hafi hins vegar ekki tekist að valda Rússum efnahagslegum vandræðum. Fyrst eftir að gripið var til refsiaðgerðanna hafi skapast nokkur vandi en tekist hafi að sigrast á honum. Talið er að í ár og á næsta ári verði 1,7% hagvöxtur í Rússlandi ef marka má það sem greiningardeild Bloomberg-fréttastofan segir.

Almennt séð hefur Rússum tekist að minnka til muna vestræn áhrif á efnahagslíf sitt. Í stað þess að treysta á dollara sem varasjóð hafi seðlabankinn keypt gull.

Nú sýna tölur frá World Gold Council að Rússar eiga 1716 tonn af gulli sem er 700 tonnum meira en þegar viðskiptatengslin rofnuðu vestur á bóginn. Gjaldeyrisvarasjóður Rússa nemur nú meira en 420 milljörðum dollara sem er rúmlega 70 milljörðum dollara meiri forði en þegar hann var lægstur árið 2015.

Þegar í mars 2017 gaf alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Rússlandi einkunnina „jákvætt“. Talið er líklegt að brátt verði landið aftur talið í hópi þeirra ríkja þar sem óhætt sé að fjárfesta. Eftir innlimun Krím og vegna íhlutunarinnar í Úkraínu settu matsfyrirtækin Rússland í ruslflokk í byrjun árs 2015.

Rússland nýtur að nýju stöðu sem góður skuldari á fjármálamörkuðum. Staða þess þar er jafnvel betri en evru-landsins Ítalíu.

Fjárfestar eru að nýju tilbúnir til að lána Rússum fé. Á liðnu sumri þegar ástandið var sem verst milli ráðamanna Rússlands og Bandaríkjanna gátu rússnesk stjórnvöld aflað sér þriggja milljarða dollara á fjármálamörkuðum. Þeir hefðu átt auðvelt með að selja þar fleiri skuldabréf.

Alþjóðlegir fjárfestar lánuðu 6,6 milljarða dollara til Rússlands þrátt fyrir allar efnahagsþvinganir. Þetta fé geta rússnesk stjórnvöld látið renna til fyrirtækja sem eru á vestrænum bannlistum. Greininni í Die Welt lýkur á þeim orðum að í raun gildi engar þvinganir lengur gagnvart Rússum á fjármálamörkuðum og þess vegna sé við því að búast að einnig losni um þær á öðrum sviðum eða þær verði afnumdar með öllu.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …