Home / Fréttir / Þýskaland: AfD spáð velgengni í þingkosningunum – Merkel hefur sterka stöðu

Þýskaland: AfD spáð velgengni í þingkosningunum – Merkel hefur sterka stöðu

Alice Weidel og Alexander Gauland helstu  talsmenn AfD.
Alice Weidel og Alexander Gauland helstu talsmenn AfD.

Kosið verður til þýska sambandsþingsins sunnudaginn 24. september. Allt bendir til þess að Angela Merkel kanslari sitji áfram í embætti sínu fjórða kjörtímabilið í röð. Hún varð kanslari árið 2005.

Spenna hefur myndast kosningarbaráttunni í lokaviku hennar vegna sóknar flokksins Alternativ für Deutschland (AfD) í krafti stefnu sinnar í útlendingamálum. Islam er „pólitískt fyrirbrigði“ sem „á ekki heima“ í Þýskalandi. Með því að hleypa svona mörgu farand- og flóttafólki til landsins hefur verið „grafið undan lögum og reglu“. Ofbeldisfull glæpastarfsemi múslima hefur orðið til þess að í „Þýskalandi öllu má nú finna no go-svæði“, það er svæði sem lögregla lætur afskiptalaus og almennir borgarar forðast.

Í forystu AfD eru Alexander Gauland og Alice Weidel. Með málflutningi þeirra, einkum Gaudels, eins og lýst er hér að ofan hefur flokkurinn skapað nýja vídd í umræðum um þýsk útlendingamál. Þessi málflutningur og boðskapur flokksins gegn ESB auk áherslna hans á gömul og viðtekin þýsk fjölskyldugildi kann að leiða til þess að hann verði þriðji stærsti flokkur Þýskalands á sunnudaginn á eftir Kristilegum demókrötum og Jafnaðarmönnum.

Atvinnuleysi er lítið í Þýskalandi og hagvöxtur viðunandi. Það eru þó ekki allir sem njóta velferðarinnar. Milljónir manna lifa á lágum félagslegum bótum eða á því sem Þjóðverjar kalla „smá vinnu“, lágt launuðum hlutastörfum sem gera mönnum kleift að hafa til hnífs og skeiðar. Þetta fólk minnist þess að það voru Jafnaðarmenn sem stóðu fyrir harkalegum breytingum á vinnumarkaðnum  í kringum aldamótin og að Jafnaðarmenn hafa einnig setið með Merkel í ríkisstjórn á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka.

Jafnaðarmenn hafa tapað miklu fylgi í Þýskalandi undanfarin ár eins og víðar í Evrópu. Til að berjast við Angelu Merkel um kanslaraembættið völdu þeir Martin Schulz sem kom beint af forsetastóli ESB-þingsins eins og stormsveipur í upphafi þessa árs. Hann breyttist þó fljótt í andvara og fylgi flokksins mælist nú minna en oft áður.

Alexander Gauland, annar helsti málsvari AfD, fæddist í Chemnitz í austurhluta Þýskalands árið 1941. Hann flýði 18 ára úr austur-þýska alþýðulýðveldinu og lagði stund á lögfræði og stjórnmálafræði í Philipps-háskólanum í Marburg. Hann gekk í flokk Kristilegra demókrata (CDU) og starfaði í upplýsingadeild þýska þingsins þegar það var í Bonn. Árið 1975 varð hann blaðafulltrúi þýsku aðalræðisskrifstofunnar í Edinborg. Síðan varð hann um skeið aðstoðarmaður CDU-mannsins Walters Wallmanns, borgarstjóra í Frankfurt, og síðar þegar hann varð umhverfisráðherra Þýskalands og enn síðar forsætisráðherra í sambandslandinu Hessen. Eftir að CDU tapaði þingkosningum í Hessen árið 1991 varð Gauland ritstjóri dagblaðsins Märkische Allgemeine í Potsdam til ársins 2005.

Hann sendi einnig frá sér bækur og bókin Anleitung zum Konservativsein (Leið til íhaldssemi) sem kom út árið 2002 er best þekkt af þeim.  Með blaðamanninum Konrad Adam og hagfræðingnum Bernd Lucke stofnaði Gauland  Wahlalternative 2013 (Annað val í kosningum 2013) sem breyttist fljótt í AfD og beitti sér gegn ESB.

Í febrúar 2014 var Gauland kjörinn formaður í flokksdeil AfD í Brandenburg og undir forystu hans náðu frambjóðendur kjöri á þing sambandslandsins með 12,2 atkvæða aðeins sjö mánuðum síðar.

Minna er vitað um ævi Alice Weidel (38 ára) en Gaulands. Hlutverk hennar fyrir flokkinn er að milda ásýnd hans. Hún er hagfræðingur að mennt, starfsmaður fjárfestingabanka og frumkvöðull sem bjó nokkur ár í Kína. Hún er samkynhneigð og býr með konu sinni frá Sri Lanka og tveimur börnum þeirra í Sviss.

Hún fer ekki leynt með skoðanir sínar og var vel fagnað eftir að hún flutti ávarp eftir umdeilda þjóðaratkvæðagreiðslu í Tyrklandi og sagði við stuðningsmenn Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta í Þýskalandi: „Farið aftur til Tyrklands!“

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …