Home / Fréttir / Þýskaland: Sigursæll miðjumaður í formennsku CDU

Þýskaland: Sigursæll miðjumaður í formennsku CDU

Armin Laschet, nýr formaður CDU.
Armin Laschet, nýr formaður CDU.

Armin Laschet, forsætisráðherra í sambandslandinu Nordrhein-Westphalen (NRW), var að morgni laugardags 16. janúar kjörinn formaður stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands, Kristilega demókrataflokksins (CDU).

Armin Laschet (59 ára) hefur verið forsætisráðherra NRW síðan 2017 þegar hann vann þar sigur á jafnaðarmönnum (SPD) og myndaði meirihlutastjórn með frjálsum demókrötum (FDP).

Í seinni umferð formannskosninganna hlaut Laschet 521 atkvæði en Friedrich Merz 466 atkvæði. Í fyrri umferðinni var Norbert Röttgen þingmaður einnig í kjöri.

Litið er á Laschet sem miðjumann innan CDU. Hann er í þeim hluta flokksins sem hefur staðið fast að baki Angelu Merkel í 16 ár í kanslaraembættinu. Friedrich Merz hefur jafnan skipað sér til hægri innan CDU en þau Merkel tókust á þegar hún var kjörin flokksformaður.

Kosið verður til þýska sambandsþingsins í september 2021. Óráðið er hvort Laschet verður kanslaraefni flokksins. Í sigurræðu sinni á flokksþinginu lagði hann áherslu á að flokkurinn yrði að sýna styrk í kosningum í einstökum sambandslöndum á næstunni og einnig halda kanslaraembættinu í haust.

Í fyrri umferð formannskosninganna hlaut Merz flest atkvæði, 385, Laschet fékk 380 og Röttgen 224.

Þegar úrslitin lágu fyrir sendi Markus Söder, formaður CSU í Bæjarlandi, systurflokks CDU, heillaóskir til Laschet á Twitter. Söder er vinsæll stjórnmálamaður, hann er jafnvel nefndur sem kanslaraefni kristilegu flokkanna og ræður miklu um hver það verður.

Í CDU eru fimm varaformenn og hefur Laschet verið einn þeirra síðan 2012. Hann er katólskur, ættaður frá Rínarhéraði. Hann hefur jafnan sýnt formönnum CDU hollustu. Angela Merkel gat reitt sig á stuðning hans í tíð sinni sem formaður til 2018, sömu sögu er að segja Annegret Kramp-Karrenbauer, arftaka Merkel á formannsstóli. Laschet brást ekki í stuðningi sínum við Merkel árið 2015 þegar farand- og flóttafólk streymdi til Þýskalands og bað um hæli.

Laschet segir að hann fylgi „skynsemisstefnu og forðist öfgar“, í því felist að í stjórnmálum „snúi hann sér að fólkinu en snúi ekki baki við því“. Hann hvetur til samheldni í samfélaginu og aðhyllist félagslega markaðshyggju.

Laschet var eini formannsframbjóðandinn með kosningasigur og reynslu af stjórnarforystu í farteskinu. Hann segir að sá sem geti með góðum árangri stjórnað 18 milljónum manna í stærsta sambandslandi Þýskalands (NRW) geti einnig stjórnað sambandsríkinu öllu sem kanslari.

Innan flokksins gerði Laschet í febrúar 2019 bandalag við Jens Spahn (40 ára), heilbrigðisráðherra Þýskalands. Fáeinum dögum fyrir formannskjörið birtu þeir sameiginlega stefnuskrá í 10 liðum og kölluðu hana #Impulse2021. Þar staðfesta þeir „skýr mörk til hægri“ og leggja áherslu á að CDU gegni mikilvægu hlutverki með skírskotun til breiðs hóps fólks sem myndi meginstrauminn í samfélaginu auk þess að höfða til launþega á vinstri kanti og áhrifamanna í fjármála- og atvinnulífi á hægri kanti.

Í utanríkismálum er Laschet eindreginn talsmaður aðildar að ESB og samstarfs ríkjanna við Atlantshaf. Hann vill auka samvinnu við Bandaríkjamenn á sviði loftslagsmála og viðskipta. ESB eigi að verða skilvirkara og efla beri samstarf Þjóðverja og Frakka í því skyni.

Stjórnarskiptin í Washington 20. janúar 2021 falla vel að þessari stefnu Laschets og hann hefur lýst þeim sem „sigri lýðræðis“. Hann hefur lengi ræktað náin tengsl við forystumenn franskra stjórnmála og er tíður gestur í París.

Armin Laschet er frá Aaachen við landamæri Belgíu og Hollands. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur starfað við blaðamennsku. Hann sat á þýska sambandsþinginu í Berlín frá 1994 til 1998. Frá 1999 til 2005 sat hann á ESB-þinginu.

Árið 2010 settist hann á þing Nordrhein-Westphalen og var frambjóðandi CDU sem forsætisráðherra sambandslandsins árið 2017. Hann myndaði að loknum kosningunum stjórn með FDP. Þá hafði þetta fjölmennasta sambandsland Þýskalands að mestu lotið stjórn jafnaðarmanna (SPD) í 50 ár. Sigur CDU í NRW varð skömmu fyrir sambandsþingkosningarnar 2017 og gaf flokknum byr í seglin um land allt þegar hægt hafði á ferð hans.

Aldrei hefur komið til opinbers ágreinings milli Laschets og Angelu Merkel. Sama verður ekki sagt um samskipti kanslara CDU við Norbert Röttgen og Friedrich Merz, keppinauta Laschets.

Stjórnmálaþátttaka nýs formanns CDU hefur ekki verið samfelld sigurganga: Árið 1998 tapaði hann sæti sínu í sambandsþinginu í Berlín. Árið 2010 tapaði hann í formannsslag í CDU í NRW við Norbert Röttgen. Hann tók hins vegar við formennskunni tveimur árum síðar eftir sáran ósigur flokksins í NRW.

Forystusveit CDU tekur ákvörðun um kanslaraefni flokksins í kosningunum í september 2021 eftir þingkosningar í tveimur sambandslöndum sem verða á næstunni. Ákvörðunin er tekin með forystusveit CSU í Bæjarlandi.

 

Heimild: DW

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …