
Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, sagði þriðjudaginn 24. janúar að pólska ríkisstjórnin hefði sent formlegt erindi til þýskra stjórnvalda með ósk um heimild til að láta Úkraínuher í té þýsk smíðaða Leopard 2 skriðdreka í því skyni að hrinda innrás Rússa í Úkraínu.
Þrýst hefur verið á stjórnvöld í Berlín með kröfu um að þau veiti samþykki sitt við því að aðrir sendi háþróuðu þýsku skriðdrekana til varnar Úkraínu, vilji Þjóðverjar ekki sjálfir senda þá þangað.
Mariusz Blaszczak sagði á Twitter að Þjóðverjar hefðu þegar fengið ósk Pólverja í hendur og varnarmálaráðherra bætti við:
„Ég hvet Þjóðverja einnig til að ganga til liðs við hóp þjóða sem styðja Úkraínumenn með Leopard 2 skriðdrekum. Þetta er sameiginlegur málstaður okkar, þetta snýst um öryggi allrar Evrópu!“
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagði síðar að hann mundi fara þess á leit við Evrópusambandið að það endurgreiddi kostnaðinn við skriðdrekana, það væri önnur „prófraun um góðvild“.
Þýska ríkisstjórnin staðfesti að hún hefði tekið á móti tilmælum Pólverja og þeim yrði sinnt í samræmi við mikilvægi málsins.
Skömmu áður að morgni þriðjudagsins 24. janúar sagði þýski varnarmálaráðherrann, jafnaðarmaðurinn Boris Pistorius, að þýska stjórnin ætti enn eftir að taka ákvörðun um sendingu skriðdreka til Úkraínu.
„Ég hef engar fréttir á þessu stigi. Ég hef áður sagt að það líði brátt að ákvörðun og ég tel að svo sé,“ sagði Pistorius.
Ráðherrann sagði Þjóðverja ekki leggjast gegn því að hermenn Úkraínu yrðu þjálfaðir til að nota Leopard drekana.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var við hliðina á Pistorius á blaðamannafundinum í Berlín. Stoltenberg sagðist hafa rætt skriðdrekamálið við ráðherrann og hann væri sannfærður um að niðurstaða þess væri á næsta leiti.
Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz Þýskalandskanslari leiðir þriggja flokka stjórn með Græningjum og Frjálsum demókrötum (FDP).
Græninginn Annalena Baerbock utanríkisráðherra styður að Leopard 2 drekarnir verði sendir til Úkraínu.
Alexander Müller, talsmaður FDP í varnarmálum, sakaði 24. janúar í samtali við DW-fréttastofuna Olaf Scholz um að hika um of við töku ákvarðana um skriðdrekana:
„Við skiljum ekki hvers vegna það skapar Scholz kanslara svona mikinn vanda að senda orrustu skriðdreka frá Þýskalandi. Við höfum þegar sent svo mikið. Við höfum sent jeppa. Við höfum sent sprengjuvörpur og við höfum sent loftvarnabúnað. Við skiljum ekkki hvers vegna Scholz, kanslari okkar, hikar svona mikið.“
Müller sagðist „fullviss“ um að Þjóðverjar mundu að lokum senda skriðdreka til Úkraínu.