
Þýska ríkisstjórnin hefur stigið skref í þá átt að takmarka rétt EES-borgara til félagslegra styrkja. Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um að atvinnuleysisbætur eða félagslegar bætur verði ekki greiddar til EES-borgara nema þeir hafi dvalist fimm ár í Þýskalandi, standi á eigin fótum eða hafi öðlast rétt til bóta vegna fyrra starfs.
„Það er ljóst að sá sem býr, starfar og innir af hendi opinberar greiðslur hér á einnig rétt á greiðslum úr félagslega kerfi okkar,“ sagði jafnaðarmaðurinn (SPD) Andrea Nahles félagsmálaráðherra þegar hún kynnti frumvarpið.
Hún bætti við: „Fái einhver aldrei vinnu hér og er háður aðstoð frá ríkinu til að geta greitt fyrir lífsnauðsynjar sínar gildir sú meginregla að hann verður að leita stuðnings í heimalandi sínu.“
Með frumvarpinu stefnir ríkisstjórnin að því að loka „glufu“ í þýskri löggjöf. Hún var formlega staðfest í þýskum dómi frá desember 2015 þar sem sagði að erlendir EES-borgarar gætu notið félagslegrar aðstoðar eftir sex mánaða dvöl í landinu.
Í janúar 2016 fengu um 440.000 erlendir EES-borgarar í Þýskalandi greiddar bætur með vísan til dómsins. Þeir voru um 470.000 í júní 2016,
Stærsti hópur útlendinga á félagslegum bótum í Þýsklandi eru Pólverjar, um 92.000, síðan Ítalir 71.000, Búlgarar 70.000, Rúmenar 57.000 og Grikkir 46.000.
Margt af þessu fólki hefur vinnu en vegna þess hve launin eru lág fær það einnig opinbrerar bætur.
Frumvarpið fer nú fyrir þýska þingið. Verði það að lögum fá þeir sem missa rétt vegna samþykktar þess greiðslu í einn mánuð úr opinberum sjóðum og verða síðan að spara sig sjálfir.
Með frumvarpinu vill ríkisstjórn Angelu Merkel koma til móts við sjónarmið þeirra sem andmælt hafa „velferðar-ferðamönnum“ í Þýskalandi, það er fólki sem sækir til landsins í því skyni að lifa á kostnað skattgreiðenda innan félagslega kerfisins.