
Þýska lögreglan handtók miðvikudaginn 28. desember 40 ára gamlan Túnisa vegna gruns um aðild hans að hryðjuverkinu sem framið var 19. desember þegar vöruflutningabíl var ekið á mannfjölda á jólamarkaði á Breitscheidplatz í Berlín. Tólf mann biðu bana vegna hryðjuverksins og 48 særðust.
Túnisinn var handtekinn í Tempelhof-hverfinu í suðurhluta Berlínar. Lögregla komst á spor hans eftir athugun á síma Anis Amris sem ók vöruflutningabílnum. Ítalskur lögreglumaður skaut hann til bana við brautarstöð í úthverfi Mílanó aðfaranótt 23. desember.
Vöruflutningabíllinn var í eigu pólsks fyrirtækis, honum var rænt og bílstjórinn skotinn áður en bílnum var ekið inn á jólamarkaðinn. Daesh (Ríki íslams) segist bera ábyrgð á hryðjuverkinu.
Tekist hefur að rekja nánar en áður hvernig Anis Amri hagaði ferð sinni frá Berlín til Mílanó eftir að hann framdi ódæðisverkið.
Að kvöldi miðvikudags 21. desember tók hann langferðabíl frá hollenska bænum Nijmegen til Lyon í Frakklandi þar sem mynd af honum náðist á eftirlitsmyndavél. Frá Frakklandi hélt hann með lest til Tórínó á Ítalíu og þaðan til Mílanó – hann var skotinn við úthverfastöðina Sesto San Giovanni eftir að hann greip til skambyssu þegar lögregla bað hann um skilríki. Tókst honum að særa annan tveggja ítalskra lögreglumanna sem rákust á hann á eftirlitsferð sinni.
Föstudaginn 23. desember handtóku yfirvöld frænda Anis Amris og tvo aðra vegna tengsla þeirra við hryðjuverkamanninn. Í tilkynningu frá túnisku yfirvöldunum segir að mennirnir þrír séu „félagar í sellu hryðjuverkamanna með tengsl við hryðjuverkamanninn Anis Amri“.