Home / Fréttir / Þýska leyniþjónustan varar viö vaxandi hættu af íslamistum

Þýska leyniþjónustan varar viö vaxandi hættu af íslamistum

Þýskir lögreglumenn við athugun á skilríkjum.
Þýskir lögreglumenn við athugun á skilríkjum.

Yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar segir að í Þýskalandi laðist æ fleiri múslimar til bókstafstrúar Salafista. Hreyfing þeirra er að mati þýskra yfirvalda hugsanlegur jarðvegur fyrir íslamska hryðjuverkamenn.

Hans-Georg Maassen, yfirmaður þeirrar greinar þýsku leyniþjónustunnar (BfV), sem heldur uppi upplýsingaöflun og greiningu innan lands, sagði þetta sunnudaginn 10. desember.

Maassen sagði að aldrei hefðu fleiri Sakafistar búið í Þýskalandi. BfV taldi þá vera 9.700 í desember 2016 en nú væru þeir 10.800. Erfiðara væri að fylgjast með þeim en áður vegna vaxandi „sundurlyndis“ og sjálfsræðari hópa innan raða Salafista.

BfV segir að ekki sé lengur aflað liðsmanna í raðir Salafista á götum úti eða í moskum heldur hafi orðið til litlir öfgahópar  sem stofni til samskipta í netheimum. Þá standi yfirvöld frammi fyrir nýrri áskorun vegna fjölgunar hópa kvenna meðal Salafista. Erfitt sé að hafa uppi á þeim.

Thomas de Maiziére, innanríkisráðherra Þýskalands, lýsti herferð Salafista í fyrra andstæða stjórnarskránni. Hún fólst í því að vegfarendur voru hvattir til að lesa Kóraninn á áróðursspjöldum með orðinu: Lesið! (Lies! á þýsku).

Maassen sagði einnig að íslamistar frá Norður-Kákasus græfu mjög undan öryggi í Þýskalandi en um 500 öfgamenn frá lýðveldum eins og Tjetsjeníu, Dagestan og Ingushetja eru nú taldir búa í landinu.

„Dálæti margra íslamista frá Norður-Kákasus á ofbeldi, bardagalistum og vopnabúnaði krefst athygli þýskra öryggisyfirvalda,“ sagði Maassen.

Hann sagði marga þessara manna búa yfir reynslu af hernaðarátökum, þeir hefðu ekki aðeins barist í Tjetjseníu heldur einnig í Sýrlandi og Írak.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …