Home / Fréttir / Þýska leyniþjónustan segir Rússa vilja koma illu af stað innan ESB – Snowden rússneskur njósnari

Þýska leyniþjónustan segir Rússa vilja koma illu af stað innan ESB – Snowden rússneskur njósnari

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Valdimir Pútín Rússlandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Valdimir Pútín Rússlandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari.

Þýska leyniþjónustan segir að fyrir liggi vitneskja um að rússnesk stjórnvöld hafi mótað áætlun um að skipulega skuli unnið að því að skapa sundrungu innan ESB með markvissum áróðri. Frá þessu er sagt í Frankfurter Allgemeine Zeitung föstudaginn 11. mars. Þar segir einnig að þýska leyniþjónustan telji Edward Snowden hafa verið njósnara fyrir Rússa innan leyniþjónustu Bandaríkjanna.

Í fréttinni segir að fyrir liggi leynilegur listi af rússneskri hálfu þar sem ESB-löndin séu skráð með tilliti til hvaða aðferðum sé best að beita til að hafa áhrif á stjórnmálalíf þeirra og samfélagið í heild og beina umræðum og ákvörðunum í þá átt sem best falli að markmiðum Rússa. Listinn hafi líklega verið tekinn saman fyrir einu ár og þar sé Þýskaland miðlægt.

Rússar telji að Þýskaland sé auðveldara skotmark en áður vegna deilnanna um komu flótta- og farandfólks til landsins. Þess vegna sé lögð áhersla á að ýta undir ágreiningsefni á því sviði.

Þýska leyniþjónustan telur að afskipti rússneskra yfirvalda af rannsókn á máli 13 ára rússnesk-þýskrar skólastúlku í byrjun þessa árs þegar hún laug því að hafa verið rænt af útlendingum sé aðeins til marks um vinnubrögð Rússa. Málinu var hampað í rússneskum fjölmiðlum og Rússar í Berlín hvattir til mótmæla auk þess sem Sergei Lavrov utanríkisráðherra gagnrýndi þýsk stjórnvöld áður en í ljós kom að stúlkann spann þessa lygasögu til að villa um fyrir foreldrum sínum þegar hún skrópaði í skólanum.

Þá segja heimildarmenn í Berlín að Edward Snowden, fyrrverandi starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, NSA, sem nú dvelst í Moskvu, að sögn af ótta við bandaríska réttvísi, hafi verið nýttur af rússnesku öryggislögreglunni til að magna áróður gegn Vesturlöndum. Snowden hefur notið hælisvistar í Moskvu síðan á árinu 2013 þegar hann stal gögnum frá NSA og fór huldu höfði til Hong Kong og þaðan til Moskvu.

Í FAZ er vitnað í CDU-þingmanninn Patrick Sensburg, formann sérstakrar NSA-rannsóknarnefndar þýska þingsins, sem segir að Snowden hafi ætlað að komast til Rússlands og orðið þar með þátttakandi í áróðursstríðinu milli Rússa og Vesturlanda. Hann nýtist rússneskum yfirvöldum og allt virðist gert í Moskvu til að honum líði sem best. Snowden geti þó ekkert gert annað en það sem Rússar leyfi honum.

Þýski þingmaðurinn telur hugsanlegt að þegar árið 2007 hafi hann unnið fyrir Rússa þegar hann var sendur á vegum CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, til Genfar. FAZ segir að meðal þýskra leyniþjónustumanna hafi um nokkurn tíma verið talið víst að rússneska öryggislögreglan hafi flutt hann til Moskvu af því að hann hafi verið samverkamaður hennar.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …