
Enginn veit á þessari stundu hver eftirleikurinn verður vegna launmorðs Bandaríkjahers á íranska hershöfðingjanum Qassim Soleimani, yfirmanni Quds-hersins, úrvalssveita byltingarhers Írans sem stofnaður var fyrir þremur áratugum þegar íslamska byltingin var gerð í Íran og klerkaveldinu komið á fót.
Þúsundir manna komu saman á götum Bagdad að morgni laugardags 4. janúar til að minnast Soleimanis. Sorgargangan hófst við Imam Kadhim helgiskrínið í Bagdad, einn mesta helgidóm shíta-múslima. Margir voru svartklæddir og báru fána Íraks og veifur bardagasveita sem lutu forystu Soleimanis. Hrópuð voru ókvæðisorð um Bandaríkin. Jafnframt bárust fréttir um að hópar Íraka hefðu fagnað dauða Soleimanis annars staðar í Bagdad.
BBC segir að flogið verði með líkamsleifar Írananna að kvöldi laugardags til Írans. Þar ríkir þriggja daga þjóðarsorg. Soleimani verður jarðsettur þriðjudaginn 8. janúar í heimabæ hans, Kerman í Mið-Íran.
Undir merkjum Quds og stjórn Soleimanis voru stundaðar njósnir, lagt á ráðin um útbreiðslu shíta-arms íslams innan nágrannaríkja Írans, hert á undirtökum Írana í Jemen, Líbanon, Sýrlandi og Írak, staðið að baki hryðjuverkum í Evrópu og um heim allan, beitt ógnvekjandi hörku gegn almennum borgurum í Sýrlandi með því að svelta þá til hlýðni eða með árásum á sjúkrahús og skóla.
Allt var þetta gert að undirlagi Soleimanis að sögn þeirra sem gerst vita. Þegar David Miliband var utanríkisráðherra í verkamannaflokksstjórn Bretlands árið 2007 stjórnaði Soleimani árásum á breska hermenn í Írak. Sérsveit breska hersins, SAS, var gerð út í þeim tilgangi að koma Soleimani fyrir kattarnef. Nú er sagt frá því að David Miliband hafi á síðustu stundu bannað SAS að láta til skarar skríða gegn Soleimani, betra væri að ræða við Írani en að drepa þá.
Vegur Soleimanis varð svo mikill að enginn þorði að hreyfa hár á höfði hans af ótta við hefndaraðgerðir Írana. Hershöfðinginn gerði sér grein fyrir þessu og sló um sig með myndbirtingum og ferðum á opinberum vettvangi án mikillar aðgæslu. Hann lét eins og enginn þyrði að ögra sér af ótta við afleiðingarnar.
Nú er Soleimani allur eftir bandaríska drónaárás að næturlagi aðfaranótt 3. janúar 2020 við flugvöllinn í Bagdad. Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf fyrirmæli um árásina eftir að Íranar höfðu drepið bandarískan verktaka í Írak (27. desember 2019) og staðið að baki árás mótmælenda á bandaríska sendiráðið í Bagdad (31. desember 2019).
Að kvöldi föstudags 3. janúar 2020 sagði Trump að hann vildi hvorki stríð við Írani né „stjórnkerfisskipti“ í Íran. Hann hefði gefið fyrirmæli sín til að uppræta samsæri gegn Bandaríkjamönnum skipukagt af Soleimani „sjúkri ófreskju“ og „númer eitt hryðjuverkamanni hvar sem er í veröldinni“. Trump sagði:
„Við gripum til okkar ráða í gærkvöldi til að stöðva stríð, við gerðum það ekki til að hefja stríð. Soleimani var haldinn sjúklegri þrá eftir dauða saklauss fólks, hann lagði sitt til hryðjuverkasamsæra allt frá Nýju Delhi til London. Ógnarstjórn hans er lokið. Hann undirbjó yfirvofandi og skuggalegar árásir á bandaríska stjórnarerindreka og starfslið en við stóðum hann að verki og tryggðum endalok hans.“
Íransstjórn hótar hefndum fyrir „glæpaverkið“ á „réttum stað og tíma“.
Frammi fyrir þessu stendur heimurinn allur í upphafi nýs árs. Aftakan er sögð hættuspil af hálfu Trumps. Að hann slái sér upp á henni í aðdraganda kosninga ræðst af framvindunni. Soleimani á allt öðru vísi bakland en hryðjuverkamennirnir Osama bin Laden, foringi al-Kaída, eða Abū Bakr al-Baghdadi, foringi Ríkis íslams, sem Bandaríkjamenn drápu. Æðsta öryggisráðs Írans segir Bandaríkjamenn hafa með glæpaverki sínu „gert mestu mistök sín í vesturhluta Asíu og þeir komast ekki auðveldlega frá þessum misreikningi sínum.“