Home / Fréttir / Þúsundir rússneskra hermanna falla

Þúsundir rússneskra hermanna falla

 

Úkraínskir fótgönguliðar.

Breska varnarmálaráðuneytið birti laugardaginn 4. nóvember mat reist á njósnagögnum sem sýnir að mörg þúsund rússneskir hermenn hafi fallið undanfarnar þrjár vikur í mörgum orrustum um bæinn Avdijivka í Úkraínu.

Fyrir utan mannfallið hafi Rússar einnig orðið fyrir miklu tjóni á hergögnum og farartækjum.

Í bardögunum hefur Úkraínuher beitt stórskotakerfum, sprengjum og flugskeytavopnum sem hermenn bera á sér. Hefur verið sótt gegn herafla Rússa af svipuðum þunga og Rússar beittu gegn Úkraínuher á liðnu sumri.

Breska ráðuneytið segir á miðlinum X (áður Twitter) að líklega hafi Rússar misst um 200 vopnuð ökutæki og mörg þúsund hermenn frá því í byrjun október.

Í færslu ráðuneytisins segir einnig að rússnesk stjórnvöld sýni enn á ný að þau geti fellt sig mikið mannfall í liði sínu til að ná örlitlu landsvæði á sitt vald.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War segir að föstudaginn 3. nóvember hafi margir rússneskir hermálabloggarar gagnrýnt yfirstjórn rússneska hersins á Telegram samfélagsmiðlinum fyrir að mennta hermenn sína illa.

Bloggararnir segja að misheppnast hafi að kenna rússneskum hermönnum herstjórnarlist, þjóðin súpi nú seyðið af því og áhrifin verði langvinn innan hersins.

Á blogginu er bent á að margir dug- og reynslumestu hermennirnir séu sendir á vígvöllinn. Reynslulausir hermenn taki á móti nýliðum, hermenn sem aldrei hafi tekið þátt í átökum og miðli bara fræðilegri þekkingu af bókinni.

Þetta leiði til þess að á vígvellinum séu nýliðar ráðalausir og verði auðveld skotmörk eða geri hver mistökin eftir önnur. Það sýni að rússneskum stjórnvöldum sé alveg sama um örlög eigin hermanna.

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …