Home / Fréttir / Þúsundir handteknar í miklum mótmælum um allt Rússland – ótti í Kreml

Þúsundir handteknar í miklum mótmælum um allt Rússland – ótti í Kreml

Myndin er tekin í Múrmansk, stærstu borg Rússlands í norðri, og sýnir mótmælagöngu með borða þar sem þess er krafist að Alexei Navalníj verði látins laus.
Myndin er tekin í Múrmansk, stærstu borg Rússlands í norðri, laugardaginn 23. janúar og sýnir mótmælagöngu með borða þar sem þess er krafist að Alexei Navalníj verði látins laus.

Rúmlega 3.300 mótmælendur voru handteknir í Rússlandi laugardaginn 23. janúar þegar þeir fóru út á stræti og torg eftir hvatningu frá stjórnarandstæðingnum Alexei Navalníj um að lýsa óánægju með Vladimir Pútin Rússlandsforseta og stjórn hans. Vinir Navalníjs segja erlendum blaðamönnum að taugaveiklun og jafnvel hræðsla hafi gripið um sig á æðstu stöðum í Rússlandi vegna þess hve margir tóku þátt í mótmælunum um allt Rússland.

Navalníj er í fangelsi. Hann yfirgaf Berlín sunnudaginn 17. janúar og hélt með flugvél til Moskvu. Þýskir læknar björguðu Navalníj eftir eiturárás í Síberíu í ágúst 2020 og lauk fimm mánaða dvöl hans í Þýskalandi með brottförinni frá Berlín. Beitt var sovésku eitri, novitsjok, gegn Navalníj og stóðu útsendarar rússneskra stjórnvalda að árásinni, þau neita hins vegar allri sök. Við komuna frá Moskvu frá Berlín var Navalníj handtekinn, sakaður um brot á skilorði.

OVD Info sem safnar upplýsingum um mótmæli stjórnarandstæðinga í Rússlandi sagði sunnudaginn 24. janúar að lögreglan hefði handtekið að minnsta kosti 3.324 mótmælendur í nokkrum tugum borga í Rússlandi öllu. Í Moskvu voru 1.320 teknir fastir og 490 í St. Pétursborg, annarri stærstu borg Rússlands. Í báðum borgunum særðust nokkrir í átökum við lögreglu.

Mótmælaaðgerðir hafa aldrei fyrr í Rússlandi samtímans leitt til þess að svo margir séu teknir höndum.

Upplýsingar bárust um að mótmælendur hefðu komið saman í meira en 100 borgum Rússlands sem sýnir að landfræðilega spönnuðu mótmælin stærra svæði en nokkur önnur hafa gert.

Frá embætti saksóknara í St. Pétursborg barst tilkynning síðdegis laugardaginn 23. janúar um að starfsmenn þess rannsökuðu einnig ásakanir um ofbeldi þar á meðal af hálfu lögreglu og valdbeitingu gegn ónafngreindri konu.

Tilkynningin var birt eftir að birst hafði í fjölmiðli í borginni myndband sem sýndi þegar miðaldra kona fellur til jarðar eftir að óeirðalögregla sparkar í hana.

Á myndbandinu sést kona – Margarita Judina – spyrja þrjá lögreglumenn í óeirðabúningi hvers vegna þeir hefðu handtekið ungan, óvopnaðan mótmælanda. Einn lögreglumannanna gefur henni þá högg í kviðinn.

Fulltrúi Dzhanelidze-sjúkrahússins í St. Pétursborg sagði að Judina hefði verið lögð inn á sjúkrahúsið að kvöldi laugardagsins með sár á höfði. „Ástand hennar er mjög alvarlegt,“ sagði fulltrúinn. „Hún er í gjörgæslu.“

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, sagði sunnudaginn 24. janúar að handtaka mörg þúsund manna í mótmælum til stuðnings Navalníj sýndi virðingarleysi yfirvalda fyrir réttindum fólks. Hvatti hann til refsiaðgerða gegn rússneskum stjórnvöldum.

„Það er áhrifamikið að sjá hve mikil þátttaka var í mótmælunum hvarvetna í Rússlandi,“ sagði Le Drian í útvarpsviðtali 24. janúar og lýsti áhyggjum yfir að ofríki rússneskra stjórnvalda gegn eigin borgurum ykist.

Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, birti yfirlýsingu ráðuneytisins þar sem fordæmdar voru „harkalegar aðferðir“ gegn mótmælendum og blaðamönnum. Krafist var að „tafarlaust og skilyrðislaust“ yrði gengið til þess að láta Navalníj lausan.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …