Home / Fréttir / Þungi í sókn Úkraínuhers í kringum Krímskaga

Þungi í sókn Úkraínuhers í kringum Krímskaga

Rússar segjast hafa komið í veg fyrir þrjár árásir tundurskeytadróna á Krímbrúna yfir Kertsj-sund sem tengir Rússland og Krímskaga sem Rússar hernámu árið 2014. Úkraínumenn segjast sækja fram í átt að borginni Melitopol og til að skera á landflutninga Rússa frá hernumda Donetsk-héraðinu til Krímskaga.

Úkraínuher sendi dróna í átt að Krímbúnni aðfaranótt 1. september og tvo dróna aðfaranótt 2. september að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins.

Úkraínumenn hafa ekkert sagt um þessar fullyrðingar rússneska ráðuneytisins. Vegna árásanna stöðvaðist umferð um brúna í þrjár klukkustundir. Stjórnvöld í Kyív hafa hvað eftir annað sagt brúna lögmætt skotmark í stríðinu vegna hergagna- og liðsflutninga yfir hana.

Rússar reyna að hindra árásir á brúna meðal annars með því að sökkva skipum henni til varnar. Í júlí var akrein á brúnni sprengd í loft upp.

Að morgni laugardagsins 2. september sagði herstjórn Úkraínu að liðsmenn hennar sæktu enn fram í áttina að Melitopol í suðausturhluta landsins.

Bandarísk yfirvöld sögðu 1. september að her Úkraínu hefði sótt „umtalsvert fram“ undanfarna daga í gagnsókn sinni í Zaporizhzhj-héraði.

Breska varnarmálaráðuneytið birti mat leyniþjónustu sinnar á stöðunni í stríðinu 2. september. Þar segir að Úkraínuher sé kominn að helstu varnarlínu Rússa í suðurhluta Úkraínu og Rússar verjist til að stöðva gagnsókn Úkraínumanna.

Þá sagði ráðuneytið að Rússar héldu sig við sókn sína í norðri, nálægt borginni Kupjansk í Kharkiv-héraði í norðaustur Úkraínu.

Bretarnir segja að markmið Rússa sé líklega að reyna að trufla gagnsókn Úkraínumanna með því að kljúfa herafla þeirra en á hinn bóginn taki Rússar einnig þá áhættu að kljúfa sinn eigin herafla þegar þeir reyni að hefta sókn Úkraínuhers.

Leyniþjónusta hers Úkraínu sendi frá sér tilkynningu 1. september um að nýleg drónaárás á herflugvöll í norðvestur Rússlandi hefði verið gerð frá stað innan Rússlands.

Árásin var gerð á Pskov-flugvöll um 700 km frá Úkraínu. „Fjórar rússneskar IL-76 herflutningaflugvélar urðu fyrir árásinni. Tvær eyðilögðust og tvær urðu fyrir alvarlegu tjóni,“ sagði Kyrylo Budanov, leyniþjónustustjóri Úkraínu.

 

Heimild: RFE/RL

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …