Home / Fréttir / Thule-herstöðin verður Pituffik-geimherstöðin

Thule-herstöðin verður Pituffik-geimherstöðin

Skipti um nafn á Thule-herstöðinni.

Nyrsta herstöð Bandaríkjanna, Thule-flugherstöðin hefur fengið nýtt nafn. Henni var gefið það við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 6. apríl (skírdag) og heitir nú Pituffik-geimherstöðin.

Með nýja nafninu er hlutverk geimhers Bandaríkjanna áréttað en í því felst einnig viðurkenning á tungu og menningu Grænlendinga segir í tilkynningu bandaríska geimhersins.

Pituffik-geimherstöðin er um 1200 km fyrir norðan heimskautsbaug á norðvesturströnd Grænlands. Dregur stöðin nú nafn á máli heimamanna á Grænlandi af landsvæðinu þar sem hún er.

Hershöfðinginn Chance Saltzman, aðgerðastjóri bandaríska geimhersins, sagði við athöfnina 6. apríl að Bandaríkjamenn kynnu mjög vel að meta framlag Grænlendinga til varnar norðurslóðum (e. Arctic) og til að auka heimsöryggi. Þess mætti vænta að nú kæmi til hernaðarlegrar keppni á norðurslóðum. Rússar hefðu þar löngum látið verulega að sér kveða og nú mundu Kínverjar líklega færa sig upp á skaftið þar. Sagði hann starfsmenn í Pituffik-geimherstöðinni mundu vinna að því með Grænlendingum og Dönum að tryggja öryggi og blómlega framtíð í geimnum og fyrir norðan heimskautsbaug.

Bandaríkjamenn reistu herstöð þarna árið 1951 og þaðan er nú stutt við verkefni á vegum bandaríska geimhersins fyrir utan að þarna er nyrsta djúpsjávarhöfn bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Í Pituffik er einnig um 3.000 metra löng flugbraut. Stöðin gegnir lykilhlutverki til að greina árás langdrægra eldflauga á fyrstu stigum hennar.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …