Home / Fréttir / Thule-herstöðin efld með 4 milljörðum dollara

Thule-herstöðin efld með 4 milljörðum dollara

Frá Thule herstöðinni nyrst á Grænlandi.

Bandaríski flugherinn hefur ákveðið að ráðstafa 3.95 milljörðum dollara til verktakans Inuksuk A/S í Nuuk á Grænlandi til framkvæmda og viðhalds á Thule flugherstöðinni, nyrstu stöð Bandaríkjahers.

Höfuðtilgangur með rekstri stöðvarinnar er að fylgjast með gervitunglum á ferð yfir norðurpólinn og hvort langdrægum eldflaugum sé skotið á loft í Rússlandi fyrir utan að styðja við hvers konar aðgerðir fyrir norðan heimskautsbaug

Með fjárveitingu flughersins er ekki stefnt að því að stækka Thule stöðina heldur að sjá til þess að hún nýtist til fulls við erfiðar aðstæður á norðurslóðum.

Bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn segir að í verktakasamningnum séu ákvæði sem snúa að starfrækslu flugvallarins, borgaralegri verkfræðiþjónustu og umhverfismálum. Þá er einnig mælt fyrir matvæla- og heilbrigðisþjónustu, eldsneytissölu og önnur verkefni sem snúa að daglegum rekstri. Samningstíminn er til 2034.

Í augum Bandaríkjahers hefur gildi Thule stöðvarinnar aukist undanfarin ár vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa á norðurslóðum. Þá hafa Kínverjar kynnt áform um að láta meira að sér kveða á svæðinu. Þeir skilgreindu sig árið 2018 sem „nálægt norðurslóðaríki“ og sögðust hafa hagsmuna að gæta í þessum heimshluta,

Bandaríkjastjórn uppfærði norðurslóðastefnu sína í október 2022. Aukin áhersla var þá lögð á að dýpka samvinnuna við Grænlendinga og aðra bandamenn Bandaríkjanna í hánorðri.

„Við munum efla getu okkar til að verja hagsmuni okkar á norðurslóðum með því að fæla frá hótunum í garð Bandaríkjanna og bandamanna okkar samhliða því sem aðgerðir í þágu aukins öryggis verða samræmdar með bandamönnum okkar og samstarfsaðilum og dregið úr hættu á stigmögnun fyrir mistök,“ segir í norðurslóðastefnunni sem staðfest er af Bandaríkjaforseta,

 

Heimild: Stars and Stripes.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …