
Undirofurstinn Joakim Paasikivi er afkomandi JK Paasikivis sem var á sínum tíma sendiherra Finna í Stokkhólmi og Moskvu, síðar forsætisráðherra og forseti, höfundur utanríkis- og varnarmálastefnunnar sem Finnar mótuðu að lokinni annarri heimsstyrjöldinni og réð samskiptum þeirra við Sovétríkin á meðan þau þrifust.
Joakim Paasikivi kennir nú herstjórnarlist við Varnarmálaháskóla Svíþjóðar og er tíður gestur í fréttatímum sænska ríkisútvarpsins til að skýra gang stríðsins sem Pútin hóf með innrásinni í Úkraínu 24. febrúar 2022.
Laugardaginn 9. júlí sagðist hann sjá þrjú merki þess að Rússar neyddust til að safna kröftum til að halda út í Úkraínu. Því lengur sem átökin stæðu þeim mun erfiðara yrði Rússum að skapa mótvægi við hernaðarmátt Úkraínumanna.
- Rússar hafa nú tekið til við að flytja varalið í áttina að Úkraínu svo að unnt sé að nýta liðsmennina í aðgerðum þar. JoakimPaasikivi segir að þetta sé aðeins eitt merki um að Rússar eigi nú í erfiðleikum með að fylla í skarðið vegna mannfalls. Líklegt sé að Rússar nái ekki almennilega vopnum sínum nema með almennu herútkalli en ekkert bendi til þess.
- Rússar hafa ræst að nýju gömul stríðstól og beinist athyglin sérstaklega að bryndrekum. JoakimPaasiviki segir að eina skýringin á notkun þeirra sé að Rússar eigi ekki lengur nóg af gangfærum nútíma tækjum. Hugsanlegt sé að gömlu tækin verði ekki notuð á vígvellinum heldur höfð til taks í svonefndum alþýðulýðveldum. Rússar muni þó standa frammi fyrir viðhaldsvanda vegna þessara tækja. Vélar bili og fallbyssuhlaupin gefi sig eftir nokkur þúsund skot og þarfnist endurnýjar. Óvíst sé hvort Rússar eigi viðgerðarstöðvar eða varahluti.
- Nýlega birti finnska ríkissjónvarpið gervihnattarmyndir sem sýnir að frá því í maí hafa menn og tæki verið flutt frá rússnesku herstöðinni Alakurtti sem er fyrir norðan heimskautsbaug, ekki langt frá finnsku landamærunum. Talið er að um 800 hermenn og rúmlega 100 farartæki, þar á meðal brynvarin ökutæki, hafi verið flutt úr 2.000 manna stöðinni. JoakimPaasikivi segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hermenn séu fluttir úr stöðvum sínum en nokkuð sérstakt sé að það skuli gert frá Alakurtti. Stórfylkið þar hafi það hlutverk að verja það sem þykir skipta mestu í rússneska heraflanum, kjarnorkukafbátana norður við Múrmansk. Menn verði þó að nýta það sem þeir eiga og neyðist þá til að hrófla við þeim einingum sem talið var að ættu að njóta friðhelgi.