Home / Fréttir / Þrjár flotadeildir bandarískra flugmóðurskipa á Vestur-Kyrrahafi

Þrjár flotadeildir bandarískra flugmóðurskipa á Vestur-Kyrrahafi

Flugmóður- og fylgdarskip frá fimm þjóðum.
Flugmóður- og fylgdarskip frá fimm þjóðum.

Flotastjórn Bandaríkjanna heldur um þessar mundir úti þremur flugmóðurskipum og fylgdarskipum á vesturhluta Kyrrahafs í fyrsta sinn síðan árið 2011. Spenna er mikil á þessu svæði vegna aðgerða stjórnar Norður-Kóreu. Þá verður Donald Trump Bandaríkjaforseti á ferð um Asíu í næstu viku.

Flotastjórnin segir að um þessar mundir sé flugmóðurskipið Nimitz og fylgdarskip þess, þar á meðal eldflaugaskip, á siglingu um Indlandshaf á leið til Kyrrahafs eftir að hafa verið við Mið-Austurlönd. Flugmóðurskipið Theodore Roosevelt og sveit skipa með því, þar á meðal beitiskip og þrír tundurspillar, sigldu inn á Vestur-Kyrrahaf 23. október en var var flugmóðurskipið Ronald Reagan fyrir.

Ferðir flugmóðurskipanna eru hluti af miklum umsvifum bandaríska flotans á þessum slóðum. Frá skipunum í flotadeildum flugmóðurskipanna má skjóta Tomahawk- stýriflaugum.

Flotastjórnin tilkynnti 13. október að kafbáturinn Michigan, einn fjögurra bandarískra kafbáta sem getur flutt að allt að 66 sérsveitarmenn, sem Bandaríkjamenn kalla Navy SEAL, auk 154 Tomahawk-stýriflauga væri í hafnarborginni Busan í Suður-Kóreu.

Bandaríska flotastjórnin segir að ekki sé nýtt að hún sendi flugmóðurskip og fylgdarskip þeirra til Vestur-Kyrrahafs og Indlandshafs. Þar sé um vel undirbúnar ferðir að ræða og aðdragandi þeirra sé langur. Ekkert sé óvenjulegt við að flotadeildirnar hittist á siglingu þegar þær fara af einu svæði á annað.

Bloomberg-fréttastofan segir þó óvenjulegt að þrjár flotadeildir séu á æfingu á Vestur-Kyrrahafi samtímis.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …