Home / Fréttir / Þrír bandarískir tundurspillar og bresk freigáta á Barentshafi

Þrír bandarískir tundurspillar og bresk freigáta á Barentshafi

Breska freigátan HSM Kent við hlið bandaríska birgðaskipsins USNS Supply.
Breska freigátan HSM Kent við hlið bandaríska birgðaskipsins USNS Supply.

Þrír bandarískir tundurspillar og birgðaskip auk breskrar freigátu voru mánudaginn 4. maí við æfingar í Barentshafi fyrir norðan Noreg og Rússland. Bandarísk herskip hafa ekki verið á þessum slóðum síðan um miðjan níunda áratuginn.

„Á þessum krefjandi tímum er mikilvægara en nokkru sinni að því látum stöðugt að okkur kveða hvarvetna við Evrópu jafnframt því að huga vel að heilsu liðsmanna okkar,“ sagði yfirmaður 6. flota Bandaríkjanna, Lísa Franchetti aðmíráll, í tilkynningu vegna ferða skipanna. „Verkefni okkar er að stuðla að svæðisbundnu öryggi og stöðugleika ásamt því að vekja traust og styrkja forsendur árvekni á norðurslóðum.“

Í frétt málgagns bandaríska hersins, Stars and Stripes, segir að með því að senda herskip norður fyrir heimskautsbaug vilji flotinn sýna að hann hafi afl til að athafna sig á svæði þar sem Rússar hafi aukið mjög viðveru sína undanfarin ár og þar sem Kínverjar vilji einnig láta að sér kveða sem efnahagsveldi.

„Bandarísk herskip hafa ekki athafnað sig á Barentshafi síðan um miðjan níunda áratuginn,“ sagði í tilkynningu bandarísku Evrópuflotastjórnarinnar mánudaginn 4. maí.

Þrír bandarískir tundurspillar USS Donald Cook, USS Porter og USS Roosevelt, birgðaskipið USNS Supply og breska freigátan HMS Kent áttu samleið á Barentshafi.

Undir lok fyrri viku tóku USS Porter, USS Donald Cook og HMS Kent sameiginlega þátt í kafbátaleitaræfingu á Noregshafi. Bandarískur kafbátur og P-8A Poseidon eftirlitsflugvél tóku einnig þátt í æfingunni.

Í Stars and Stripes segir bandaríska Evrópuflotastjórnin beini nú einkum athygli sinni að ferðum rússneskra kafbáta. Rússar hafi endurnýjað þennan neðansjávarflota sinn undanfarin ár og umsvif hans hafi aukist á norðurslóðum.

James Foggo aðmíráll, yfirmaður bandarísku Evrópuflotastjórnarinnar, flutti ræðu á 147. ársfundi Bandarísku flotastofnunarinnar, U.S. Naval Institute, og minnti á að haustið 2019 hefðu samtals 10 rússneskir kafbátar verið samtímis í Norður-Íshafi og Norður-Atlantshafi. Þessi fjöldi hefði þótt athyglisverður í kalda stríðinu, sagði Foggo.

Aðmírállinn sagði að Rússar sýndu „árásarhneigð á norðurslóðum“ eins og annars staðar. Þeir hefðu til dæmis hannað nýjan ísbrjót, Ivan Papanin, á þann. veg að þeir gætu sett Kalibr-stýriflaugar um borð í hann.

„Hver setur flugskeyti um borð í ísbrjóta? Rússnesk herskip og nýir fjölþátta kafbátar af Kíló-gerð eru meira á siglingu en áður og fara víðar, einkum á Svartahafi og austurhluta Miðjarðahafs,“ sagði Foggo.

Rússneska varnarmálaráðuneytið birti stutta tilkynningu mánudaginn 4. maí og sagði að rússneski Norðurflotinn fylgdist með aðgerðum „sóknarflota NATO“.

Á norsku vefsíðunni BarentsObserver er leitað álits á ferðum herskipanna hjá Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor við félagsfræðideild Háskólann í Tromsø. Hann svarar og spyr:

„Eru æfingar á vegum flota Bandaríkjanna og Bretlands á Barents- og Noregshafi til varnar siglingaleiðunum yfir Atlantshaf eða ógna þær brjóstvörn Rússa og kjarnorku-fælingarmætti þeirra og þar með strategískum stöðugleika?“

Hann telur að í þessu ljósi hafi verið skynsamlegt fyrir norska herinn að taka ekki þátt í æfingunum. Bandaríkjamenn ættu að íhuga vandlega áhrif eldflaugavarna sinna á svæðinu á strategískan stöðugleika.

„Norðmenn halda sig frá þessum æfingum ef til vill vegna þess að þeir átta sig á hættunni sem það gæti haft fyrir tvíhliða samskipti þeirra við Rússa ef þeir ógnuðu rússneska kjarnorku-fælingarmættinum.“

Rússar gerðu í nóvember 2019 tilraun með að skjóta Kinzhal-skotflaug úr MiG-31K yfir Barentshafi en flaugarnar geta borið kjarnaodda. Flugvélin hóf sig á loft frá Olenegorsk-flugherstöðinni á Kólaskaga og flaugin lenti á Pemboj skotæfingarsvæðinu í Komi-lýðveldinu.

Kh-47M2 Kinzhal er að sögn BarentsObserver eitt af sex nýjum strategískum kjarnorkuvopnum sem Rússar þróa um þessar mundir. Í grunninn er Kinzhal-skotflaugin flugvélaútgáfa af land-skotflauginni Iskander sem er skammdræg. Þegar flaug af þessari gerð er sett í flugvél verður hún mun hættulegri en ella. Í fyrsta lagi er erfitt að átta sig á hvaðan flauginni kunni að verða skotið og í öðru lagi ræðst drægi flaugarinnar af því hvert flugvélinni er flogið.

Munurinn á stýriflaug (e. crusie missle) og skotflaug (e. ballistic missle) er að breyta má stefnu stýriflaugarinnar eftir að henni er skotið af stað en ekki skotflaugarinnar. Skotflaugar fara á ofurhraða í gegnum gufuhvolfið.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …