Home / Fréttir / Þríhliða varnarsamkomulag Bandaríkjanna, Finna og Svía undirritað

Þríhliða varnarsamkomulag Bandaríkjanna, Finna og Svía undirritað

 

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands.
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands.

Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna, Finnlands og Svíþjóðar stíga mánudaginn 14. maí enn eitt skrefið til að auka hernaðarlegt samstarf ríkjanna. Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands, og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, hitta þá James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í Washington.

Ráðherrarnir ræða hernaðarlegt samstarf ríkjanna þriggja og almennt um stöðu öryggismála, segir í fréttatilkynningu finnska varnarmálaráðuneytisins. Þá ætla þeir einnig að rita undir þríhliða samstarfsyfirlýsingu.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að með yfirlýsingunni verði fyrri ákvarðanir ríkjanna um samstarf staðfestar og tekið skref  til að tryggja að samstarfið falli að öðrum fjölþjóðlegum skyldum og heræfingum.

Finnska varnarmálaráðuneytið minnir á að svipaðar tvíhliða samstarfsyfirlýsingar hafi verið gefnar út árið 2016 af hálfu Finna annars vegar og Svía hins vegar með Bandaríkjamönnum. Þær hafi skilað góðum árangri og í því ljósi sé nú gefin út þríhliða viljayfirlýsing um samstarf.

Charly Salonius-Pasternak, sérfræðingur í utanríkis- og öryggismálum, segir við finnska ríkisútvarpið YLE að gildi samkomulagsins sé umtalsvert. Með því sé einfaldað skipulag og stjórnkerfi vegna heræfinga sem stöðugt fjölgi auk þess sem miðlun upplýsinga milli ríkjanna sé auðvelduð, þar á meðal um vopnabúnað.

Peter Hultqvist sagði við sænska dagblaðið Dagens Nyheter að samkomulagið miðaði að því að auka stöðugleika með aukinni viðveru Bandaríkjahers í Evrópu.

Salonius-Pasternak sagði þessi orð Hultqvist athyglisverð því að þau bentu til þess að litið væri á samkomulagið sem nauðsynlegan lið í að skapa betri skilyrði fyrir hlutdeild Bandaríkjanna í finnskum og sænskum varnarmálum.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …