Home / Fréttir / Þriggja flokka stjórn rædd í Þýskalandi

Þriggja flokka stjórn rædd í Þýskalandi

Olof Scholz, kanslaraefni þýskra jafnaðarmanna (SPD).

Jafnaðarmenn (SPD) hlutu nauman meirihluta (25,7%) í kosningum til þýska sambandsþingsins sunnudaginn 26. september. Kanslaraefni þeirra er Olaf Scholz, fjármálaráðherra í kráfandi stjórn Angelu Merkel.

Mánudaginn 27. september tilkynnti Scholz að hann ætlaði að reyna myndun þriggja flokka stjórnar með Frjálsum demókrötum (FDP) og Græningjum. Hann sagði að úrslit kosninganna sýndu að tímabært væri fyrir kristilegu flokkana (CDU/CSU) að setjast í stjórnarandstöðu eftir að Angela Merkel hefur setið í 16 ár sem kanslari.

Angela Merkel var ekki lengur í framboði og mistókst eftirmanni hennar í forystu CDU, Armin Laschet, að viðhalda fylgi flokksins sem minnkaði mikið en samtals fengu CDU og kristilegi flokkur Bæjararlands, CSU, 24,1% atkvæða.

„Kjósendur hafa tekið af skarið. Þeir segja hver á að mynda næstu ríkisstjórn. Þeir hafa styrkt þrjá flokka, jafnaðarmenn, Græningja og FDP, umboðið er þess vegna skýrt, landsmenn vilja að þessir þrír flokkar myndi næstu ríkisstjórn.“

Armin Laschet telur Þjóðverjum á hinn bóginn fyrir bestu að stjórn CDU/CSU undir sinni forystu stjórni landinu. Kristilegir hafa ekki fengið minna fylgi í sambandsþingskosningum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Í aðdraganda kosninganna og á kjördag veltu menn fyrir sér ýmiss konar stjórnarmynstri.

Þriggja flokka stjórnin sen Scholz nefnir til sögunnar er gjarnan kennd við umferðarljós með vísan til flokkslitanna: rautt fyrir SPD, gult fyrir FDP og grænt fyrir Græningja.

FDP fékk 11,5% atkvæða og Græningjar 14,8%.

Þegar stefnu FDP er lýst er gjarnan sagt að þar fari flokkur fyrirtækja og fjármála. Telja því margir að erfitt verði fyrir FDP og SPD að koma sér saman um stjórnarsáttmála en þeir eru að jafnaði langir og nákvæmir í Þýskalandi.

Enginn getur sagt fyrir um hve langan tíma stjórnarmyndun tekur í Þýskalandi. Eftir kosningarnar 2017 tók tæplega hálft ár að semja stjórnarsáttmála CDU/CSU og SPD undir forsæti Merkel, var þar þó um endurnýjun á stjórnarsamstarfi stóru þýsku flokkanna að ræða.

Die Linke, flokkurinn lengst til vinstri á þýska þinginu, rétt marði að komast yfir þröskuldinn inn í þingið með 4,9% atkvæða. Flokkurinn lengst til hægri, Alternative für Deutschland, fékk 10,3%. Hvorugur flokkanna kemur til álita við myndun ríkisstjórnar.

Susanne Hennig-Wellsow, annar tveggja formanna Die Linke, sagði að ástæður hruns flokksins væru of „flóknar“ til að hún gæti lýst þeim á blaðamannafundi.

Hinn flokksformaðurinn, Janine Wissler, lýsti úrslitunum sem „þungu höggi“ og sagði að flokkurinn ætti að „nota næstu fjögur ár til að endurreisa flokkinn og takast á við kerfislæg vandamál“.

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …