
Hundruðum bandarískra skriðdreka og farartækja sem tengjast brynvörðu stórfylki hefur verið landað í Þýskalandi á leið til Póllands. Þarna er um að ræða þriðja bandaríska stórfylkið í Evrópu sem sent er yfir Atlantshaf til að staðfesta skuldbindingar Bandaríkjamanna á austurvæng NATO.
Unnið var að losun bandarískra herflutningaskipa sunnudaginn 8. desember í höfninni í Bremerhaven í Norður-Þýskalandi. Á hafnarbakkanum mátti sjá hundruð skriðdreka, flutningabíla og annarra tækja.
Bandaríski flughershöfðinginn Tim Ray, vara-yfirmaður Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna, flutti ávarp í tilefni af komu tækjanna fyrir stórfylkið. Hann sagði:
„Ég segi afdráttarlaust: Þetta er hluti átaks okkar til fæla Rússa frá árás, til að tryggja óskertan landsyfirráðarétt bandamanna okkar og til að tryggja að ekki sé vegið að Evrópu og hún sé frjáls, blómleg og friðsöm.“
Hafist var handa við að losa fyrstu hergögnin úr skipum í Bremerhaven föstudaginn 6. janúar en um helgina komu fyrstu bandarísku hermennirnir til Póllands.
Bandaríkjastjórn tilkynnti síðla árs í fyrra að hún mundi senda þriðja stórfylkið til Evrópu, fjölga hergögnum í vopnabúrum og senda herlið á vettvang sem dveldist níu mánuði í senn í búðum stórfylkisins.
Til stórfylkis heyrir: 3.500 hermenn, 87 skriðdrekar, 18 sprengjuvörpur, 419 fjölnota bryndrekar (The High Mobility Multipurpose Wheeled Vehicle, humvee), 144 vígdrekar af Bradley-gerð, 446 beltabílar, 907 flutningabílar og 650 tengivagnar.
Í Bremerhaven er miðlæg dreifingarmiðstöð fyrir hergögn stórfylkisins og verða þau flutt þaðan til athafnasvæða stórfylkisins og höfuðstöðvanna í Póllandi. Í byrjun febrúar verða liðsmenn stórfylkisins dreifðir frá Póllandi um austurhluta Evrópu frá Eystrasaltsríkjunum til Rúmeníu og Búlgaríu. Ein hersveit verður í Grafenwöhr í Þýskalandi til æfinga og viðhalds.
Þjóðverjar, Kanadamenn og Bretar munu senda herfylki sem dveljast tímabundið og til skiptis í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Ray hershöfðingi sagði að stórfylki landhersins væri aðeins hluti öflugri fælingarherafla sem næði til „geimsins, netheima, lofts og lagar“. Hann sagði að tæplega 70.000 bandarískir hermenn í Evrópu löguðu sig nú að strategískum veruleika þar með ágengni af hálfu Rússa, fólksflutningum og öfgahyggju íslamista.
Heimild: dw.de