Home / Fréttir / Þriðja árás Tyrkja á Kúrda á þremur árum

Þriðja árás Tyrkja á Kúrda á þremur árum

Tyrkir fylkja liði á leið til Sýrlands.
Tyrkir fylkja liði á leið til Sýrlands.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að árás sem her Tyrkja hóf miðvikudaginn 9. október gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands eigi að leysa upp „samgönguæð hryðjuverkamanna“. Árásin hófst skömmu eftir að her Bandaríkjanna yfirgaf svæðið.

Skotmörk tyrkneska hersins eru liðsmenn Verndarsveita kúrdískrar alþýðu (YPG). Tyrkir telja YPG tengjast Verkamannaflokki Kúrda (PKK) sem hefur barist í fjóra áratugi gegn tyrkneskum yfirvöldum fyrir frelsi Kúrda.

„Við vegum ekki að landsyfirráðum Sýrlendinga og frelsum heimahéruð úr höndum hryðjuverkamanna,“ sagði Erdogan á Twitter.

Við upphaf hernaðaraðgerða Tyrkja heyrðust nokkrar stórar sprengingar í sýrlenska bænum Ras al-Ayn handan landamæranna andspænis tyrkneska bænum Ceylanpinar.

Að sögn herstjóra Kúrda flýðu þúsundir almennra borgara bæinn og „gífurleg skelfing“ varð þegar árásin hófst.

Tyrkir hófu að undirbúa hernað sinn eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti á Twitter að kvöldi sunnudags 6. október að bandaríski herinn yrði kallaður á brott frá landamærasvæðinu.

Þetta er í þriðja sinn á þremur árum sem tyrkneski herinn ræðst á YPG sem barðist við hlið Bandaríkjahers gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams í Sýrlandi.

Ákvörðun Trumps um að kalla bandaríska herinn frá norðurhluta Sýrlands hefur sætt mikilli gagnrýni í Washington meðal þeirra sem líta á Kúrda sem bandamenn Bandaríkjanna.

Repúblíkaninn Lindsey Graham öldungadeildarþingmaður og eindreginn stuðningsmaður Trumps sagði við vefsíðuna Axios að kvöldi þriðjudags 8. október að Trump hefði gert mestu mistökin á forsetaferli sínum með því að kalla herinn frá Sýrlandi. Hann hefði ekki farið að ráðum öryggisráðgjafa sinna og stefnt forsetaferli sínum í hættu.

„Ég tel hann kalla hættu yfir þjóðina og held að hann stofni forsetaferli sínum í hættu,“ sagði Graham. „Og ég vona að hann sjái að sér eins og hann gerði áður. Í því fælist raunveruleg forysta. Heyri ég forsetann enn einu segja: Ég gaf kosningaloforð um að fara út úr Sýrlandi, æli ég. Forsetinn er ekki að ljúka stríðinu. Hann er að ýta undir meiri styrjaldarátök breyti hann ekki um stefnu.“

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …