Home / Fréttir / Þreyttur rússneskur varnarmálaráðherra birtist eftir tveggja vikna fjarveru

Þreyttur rússneskur varnarmálaráðherra birtist eftir tveggja vikna fjarveru

Sergei Shoigu þótti fölur og fár þegar hann birtist á myndskeiði 26. mars 2022.

Rússneski varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu (66 ára) virtist taugaspenntur og þreyttur þegar hann sást á myndskeiði laugardaginn 26. mars. Myndin sýndi hann stjórna fundi í Kreml og var birt til að áhorfendur þyrftu ekki að velkjast í vafa um að ráðherrann væri við störf hvað sem liði orðrómi um að hann hefði fengið hjartaáfall, segir á bresku vefsíðunni MailOnline.

Á myndinni var ráðherrann sviplaus og rödd hans rám þegar hann las minnisblað á fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytisins um auknar fjárveitingar til hersins vegna Úkraínustríðsins, eða „sérstöku hernaðaraðgerðanna“ eins og stríðið heitir á Kremlarmáli.

Þetta er í fyrsta sinn í tvær vikur sem varnarmálaráðherrann sést taka til máls á opinberum vettvangi. Myndskeiðið birtist á samfélagsmiðli ráðuneytis hans og þar segir Shoigu að sem fyrr fái herinn afhent vopn og tæki á undan áætlun með yfirdrætti. Höfuðáhersla sé lögð á langdræg ofur nákvæm vopn, tæki fyrir flugvélar og til að viðhalda virkum viðbúnaði langdræga kjarnorkuheraflans.

Í frétt Reuters segir að háttsettir embættismenn varnarmálaráðuneytisins hafi setið fundinn og auk þeirra Valeríj Gerasimov herráðsforingi en nýlega hedur hann ekki heldur sést opinberlega nýlega.

Á örstuttu myndskeiði sem birtist í sjónvarpi fimmtudaginn 24. mars sást Shoigu á fundi Vladimirs Pútins Rússlandsforseta með rússneska öryggisráðinu. Þar heyrðist hann ekki segja neitt. Þá hafði varnarmálaráðherrann ekki sést opinberlega síðan föstudaginn 11. mars.

MailOnline segir að vangaveltur séu um að Shoigu hafi óskað eftir lausn frá ráðherraembættinu við upphaf stríðsins en Pútin hafnað því.

Anton Gerasjenko, ráðgjafi Úkraínustjórnar, sagði föstudaginn 25. mars að Shoigu glímdi annaðhvort við hjartakvilla eða hann hefði hreinlega fengið hjartaáfall. Ráðgjafinn sagði: „Shoigu fékk hjartaáfall eftir að Pútin hafði skammað hann hressilega fyrir algjörlega misheppnaða innrás í Úkraínu.“

Með þessum orðum leggur Anton Gerasjenko út af orðrómi í Moskvu um að upp úr hafi soðið milli Pútins og varnarmálaráðherrans nokkrum dögum eftir að stríðið hófst í febrúar og við blasti að því lyki ekki með skjótum sigri.

Þá eru sögusagnir um að öryggisgæsla hafi verið aukin umhverfis Shoigu, að því er virðist til að verja hann gegn launmorðingjum. Meðal sumra innvígðra er litið þannig á að þetta sé í raun „handtökuaðferð“.

Sagt er frá atviki þar sem Pútin hafi verið sagt að Shoigu „liði illa og kvartaði undan verk og sviða á hjartasvæðinu“. Rússlandsforseti hafi bannað að leitað yrði til læknis fyrir þennan vin sinn og lýst honum sem „skrópsjúkum“ að því segir í færslu General SVR Telegram og þar er vitnað til innvígðra í Kreml. Forsetinn hafi ekki leyft að kalla á lækni fyrr en eftir að Shoigu missti meðvitund.

Þá segir einnig að 10. mars hafi Shoigu beðið um að fá lausn frá embætti en Pútin hafnað ósk hans og sagt hann verða fluttan í annað starf að stríðinu loknu.

Kesina, 31 árs dóttir Shoigus og fjármálagreinandi, vakti undrun ýmissa þegar hún lét taka mynd af sér og ungabarni sínu þar sem blár og gulur, litir Úkraínu, voru áberandi.

Þegar Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, var á dögunum spurður um fjarveru varnarmálaráðherrans svaraði hann að vegna sérstakra aðgerða hersins hefði ráðherrann engan tíma til að sýna sig fjölmiðlamönnum, hann hefði nóg annað gera.

Sergei Shoigu á eins og margir í Rússlandi rætur í Úkraínu. Móðir hans fæddist í Úkraínu og ólst upp í Luhansk, þar sem blóðugt aðskilnaðarstríð hefur staðið árum saman. Faðir hans er rússneskur og á rætur í Síberíu við landamæri Mongólíu.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …