Home / Fréttir / Þreytistríð hafið eftir 100 daga átök í Úkraínu

Þreytistríð hafið eftir 100 daga átök í Úkraínu

Leitað í rústum i Donbas-héraði.

Her Úkraínu veitir viðnám gegn ofsafenginni sókn Rússa í borginni í Sjevjerodonetsk í austurhluta landsins. Borgin er helsti átakapunktur í styrjöldinni föstudaginn 3. júní þegar 100 dagar eru síðan Rússar réðust af tilefnislausu inn í nágrannaland sitt með því yfirlýsta markmiði Vladimirs Pútins Rússlandsforseta að afmá landamæri þess og innlima allt í Rússland. Nú er talið að Rússar hafi um 20% af landsvæði Úkraínu á valdi sínu, um 125.000 ferkílómetra.

Af hálfu NATO er nú rætt um „þreytistríð“ í Úkraínu, stríðsaðilar láti á það reyna hvor hafi meira og lengra úthald.

Að kvöldi fimmtudags 2. júní sagði Volodymyr Zelenskjí, forseti Úkraínu, að her stjórnar hans hefði náð að snúa vörn í dálitla sókn í Sjevjerodonets. Hvort hún héldi áfram vissi enginn. Almennt væri staðan „mjög erfið“.

Að morgni 3. júní sagði breska varnarmálaráðuneytið í daglegri úttekt sinni á gangi stríðsins að væri miðað við upphaflega hernaðaráætlun Moskvuvaldsins hefði hún hvergi skilað því sem að var stefnt.

„Rússneska hernum mistókst að ná upphaflegu markmiði sínu að leggja undir sig Kyív og stjórnarstofnanir Úkraínu,“ segir í bresku úttektinni. „Öflug andstaða Úkraínumanna og að Rússum tókst ekki að leggja undir sig Hostomel-flugvöll [skammt frá Kyív] á fyrstu 24 tímunum varð til þess að sóknaraðgerðum Rússa var hrundið.“

Vestrænir embættismenn segja að eftir um það bil þrjár vikur berist fullkomin vopnakerfi til Úkraínuhers sem býr sig undir enn frekari sókn Rússa.

Breska leyniþjónustan telur að Rússar ráði nú yfir meira en 90% af Luhansk-héraði í austurhluta Úkraínu og innan tveggja vikna hafi þeir náð öllu héraðinu á sitt vald. Jafnframt er þó tekið fram að sá árangur sem Rússar hafi náð á einstökum stöðum undanfarið sé þeim dýrkeyptur og svo verði áfram.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var 2. júní í Washington og notaði þar orðið „þreytistríð“ (e. a war of attrition) til að lýsa átökunum.

„Stríð eru í eðli sínu ófyrirsjáanleg og þess vegna er ekki annað að gera en búa sig undir að þetta vari lengi,“ sagði Stoltenberg að loknum fundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta.

Hann taldi líklegast að stríðinu lyki við samningaborðið en það sem þar yrði sagt tengdist beint stöðunni á vígvellinum.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …