
Tveir tundurspillar úr 6. flota Bandaríkjanna og bresk freigáta auk birgðaskips hafa undanfarna daga verið á siglingu um Barentshafs. Er þetta í fyrsta sinn síðan um miðjan níunda áratuginn sem þetta hefur gerst. Norski herfræðingurinn Per Erik Solli segir að þetta sé liður í reglubundnum siglingum bandarískra herskipa á norðurslóðum.
Í samtali við norsku vefsíðuna Barents Observer segir Per Erik Solli að tvær meginástæður séu fyrir því að þessar siglingar þyki eðlilegar:
Í fyrsta lagi vilji bandaríski flotinn staðfesta að Barentshaf sé alþjóðleg siglingaleið, skip hafi frelsi til ferða þar.
Í öðru lagi hafi nýjar og langdrægar stýri- og skotflaugar (e. cruise- og ballistic missiles) Rússa orðið til þess að af hálfu NATO sé talið óhjákvæmilegt að setja Norðurflota Rússa skorður norðar en áður, kæmi til hnattrænna átaka.
Per Erik Solli er nú ráðgjafi við Nord-háskólann í Bodø en starfaði áður við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI).
Undir lok mars 2020 kynnti bandaríska hugveitan Rand Corporation norska varnarmálaráðuneytinu skýrslu sem hún vann fyrir ráðuneytið þar sem gerð er grein fyrir því að rússnesk herskip og kafbátar vopnaðir Kalibr og öðrum nútíma stýriflaugum yrðu hættuleg fyrir NATO á Norður-Atlantshafi færu skipin vestur fyrir Bjarnarhliðið, það er línu sem dregin er frá Knöskanesi nyrst í Noregi um Bjarnarey í Barentshafi til suðurodda Spitsbergens (sjá kort).
Í frásögn Barents Observer segir að rússnesk herskip og kabátar hafi nokkrum sinnum undanfarin tvö ár efnt til æfinga í Noregshafi undan strönd Nordland í Noregi. Þessar æfingar séu annars eðlis en það sem sovéski Norðurflotinn æfði í kalda stríðinu, hann hafi aldrei skotið flaugum frá skipum fyrir vestan Knöskanes heldur hafi skipin að mestu verið í austurhluta Barentshafs.
Með brjóstvörn (e. Bastion defense) sinni stefni Rússar að því að halda herafla NATO frá nyrsta hluta Norður-Atlantshafs og tryggja þannig að ekki verði vegið að fælingarmætti langdrægra skotflauga um borð í kjarnorkukafbátum Norðurflotans.
Bandaríski flotinn tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytinu um ferðir herskipanna á Barentshafi. Í stuttri yfirlýsingu ráðuneytisins sagði „Norðurflotinn fylgist með ferðum sóknarhóps NATO“.
„Öll samskipti við rússenska flotans hafa einkennst af öryggi og fagmennsku,“ sagði Matthew Comer, foringi í 6. flota Bandaríkjanna, við Barents Observer.
Per Erik Solli minnir á að í NATO-æfingunni Trident Juncture haustið 2018 hafi bandaríska flugmóðurskipið USS Harry S. Truman og forystuskipið USS Iwo Jima með fylgdarskipum siglt norður fyrir heimskautsbaug. Í fyrra hafi svo tundurspillirinn USS Donald Cook ásamt með herskipunum USS Normandy og USS Faragut haldið til norðurs á Noregshafi.
Í fyrra var þremur B-52 langdrægum bandarískum sprengjuvélum flogið austur yfir Barentshaf eftir flugleið sem ekki hafði verið farin síðan kalda stríðinu lauk. Þá voru B-2 bandarískar sprengjuvélar í fyrsta sinn við Noreg og Ísland í fyrra og nú síðast í mars á þessu ári.
Solli telur ólíklegt að bandarísk herskip fari Norðurleiðina, það er sigli fyrir norðan Rússland frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Bandaríkjamenn ráði ekki yfir nægilega öflugum ísbrjóti til að veita bandarísku herskipi aðstoð færi eitthvað úrskeiðis í slíkum leiðangri.
Hertar reglur Rússa
BSAH Rhône, nýtt stuðningsskip franska flotans, sigldi næsta óvænt Norðurleiðina í september 2018. Skipið lét úr höfn í Tromsø 1. september 2018 og lauk ferð sinni eftir Norðurleiðinni í Dutch Harbor í Alaska 17. september 2018.

Eftir þessa ferð var sagt að Rússar ætluðu setja nýjar reglur um að erlend ríki yrðu að tilkynna með að minnsta kosti 45 daga fyrirvara um Norðurleiðarsiglingu og gefa upp nafn skips, markmið, siglingaleið og lengd ferðarinnar. Þá yrði að lýsa gerð skipsins, t.d. lengd, breidd, þyngd og vélargerð auk nafns skipstjórans. Skylt yrði að hafa rússneskan hafnsögumann um borð.
Í rússneska blaðinu Izvestia sagði að yrði ekki farið að reglunum áskyldu Rússar sér rétt til harðra aðgerða, t.d. að stöðva skipið, handtaka áhöfnina og jafnvel gera skipið upptækt.
Yfirlýstur tilgangur þessara reglna var að gæta umhverfisins á þessum viðkvæmu slóðum.
