Home / Fréttir / Þrengir verulega að rússneska hernum vegna skorts á skotfærum

Þrengir verulega að rússneska hernum vegna skorts á skotfærum

Rússneska varnarmálaráðuneytið sendi þessar myndir af rússnesku stórskotaliði í Úkraínu fimmtudaginn 25. ágúst 2022.

Njósnadeild hers Úkraínu telur að Rússar hafi gengið mjög á skotfærabirgðir sínar með stöðugum skotflaugaárásum á hernaðarleg og borgaraleg mannvirki nótt sem nýtan dag.

„Rússar eiga núna ekki meira en 45% af skotflaugunum sem þeir áttu við upphaf allsherjar stríðsins. Rússar glíma við vanda vegna Kalibr-stýriflauganna sinna og þeir eiga enn aðeins um 20% eða minna af Iskander-eldflaugunum,“ segir Vadym Skibitskíji, fulltrúi njósnadeildar varnarmálaráðuneytis Úkraínu, við fréttastofu Úkraínu, RBK, að sögn blaðsins Kyiv Independent laugardaginn 27. ágúst.

Í mörgum af fullkomnustu flaugum Rússa er að finna íhluti frá vestrænum framleiðendum. Nú hefur verið lokað á sölu íhlutanna til Rússa og þess vegna þrengir að þeim. Þá berast fréttir um að Rússar hafi tekið margra áratuga gömul sovésk hergögn í notkun.

Í fjölmiðlum, meðal annars The New York Times, segir að rússneska stórskotaliðið gert allt að 70.000 skotárásir á sólarhring. Vegna þess að Úkraínuher bjó ekki yfir sama afli hallaði á hann í stríðinu.

Í lok júlí sagði breski herinn að Rússar hefðu fjölgað árásum með loftvarnaflaugum gegn skotmörkum í Úkraínu vegna skorts á betri vopnum.

„Það er mikil hætta á að þessi vopn lendi ekki á þeim stað þar sem ætlað var og hitti þess í stað almenna borgara, flaugarnar eru ekki gerðar til slíkra hluta og þeir sem nota þær hafa hlotið litla þjálfun til að gera slíkar árásir,“ segir í bresku skýrslunni.

Úkraínski hershöfðinginn Oleksij Hromov sagði nýlega að Rússar notuðu ónákvæmar flaugar úr gömlum sovéskum vopnabúrum í árásum sínum.

Stríðsgæfan snerist Úkraínumönnum í vil eftir að þeir fengu langdræg og nákvæm vestræn vopn, einkum frá Bandaríkjamönnum og Bretum. Sagt er að bandaríska HIMARS-skotkerfið hafi markað þáttaskil í stríðinu. Her Úkraínu nær til skotmarka í meiri fjarlægð en áður og grandar vopnabúrum Rússa og aðfangaleiðum. Með því að ráðast á veikustu bletti rússneska hersins stöðvar Úkraínuher sókn hans og tekst ef til vill að endurheimta hernumið landsvæði.

Fréttir berast hins vegar af því að Rússar sendi nú mikinn liðsafla til Suður-Úkraínu. Undanfarna daga hafa sést bílalestir með þungvopn á leið þangað. Eftir að skemmdarverk voru unnin á Krímskaga, íbúum þar til mikillar skelfingar, hafa Rússar hert gæslu á leiðum til skagans í leit að fjandmönnum sínum.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir að ákveðið sé að láta Úkraínuher í té NASMAS-loftvarnakerfi sem á að duga vel gegn drónum, stýriflaugum, þyrlum og flugvélum.

Sagt er að Rússar hafi nýlega fengið hundruð af írönskum drónum. Fréttastofur segja óljóst hvort rússneski herinn hafi tekið að beita þeim á vígvellinum.

Tony Radakin, yfirmaður breska heraflans, sagði þegar um miðjan júní að um 25% af landher Rússa væru fallin í Úkraínu.

„Þetta er hrikaleg útreið fyrir Rússa. Strategískt hafa þeir þegar tapað. Rússneska herinn skortir bæði hermenn og þróaðar skotflaugar og honum tekst aldrei að leggja alla Úkraínu undir sig,“ sagði Radakin við Sky News.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sendi rússneska hernámsliðinu nýja viðvörun laugardaginn 27. ágúst:

„Innrásarliðið deyr eins dögg fyrir sólu og varnarlið okkar er þessi sól. Sá dagur kemur þegar rússneski herinn yfirgefur Úkraínu. Stig af stigi munu úkraínskir hermenn eyða mætti hernámsliðsins, sá dagur kemur þegar óvinurinn deyr í Zaporizhzhia [kjarnorkuverinu], í suðri og austri í landinu og á Krím.“

Heimild: ABC nyheter

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …