Home / Fréttir / Þorgerður Katrín: Tökum virkan þátt í Nató og alþjóðasamstarfi

Þorgerður Katrín: Tökum virkan þátt í Nató og alþjóðasamstarfi

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flytur ræðu á hátíðarfundi Varðbergs. Við borðið sitja Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Íslandsdeildarinnar á NATO-þinginu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flytur ræðu á hátíðarfundi Varðbergs. Við borðið sitja Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Íslandsdeildarinnar á NATO-þinginu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, varaformaður Íslandsdeildarinnar á NATO-þinginu, var ræðumaður á hátíðarfundi Varðbergs í tilefni af 70 ára afmæli NATO 4. apríl 2019. Hér birtist ræða hennar:

Þegar Nató var stofnað fyrir 70 árum og Ísland ákvað að ganga í bandalagið og gerast einn af stofnaðilum þess var það umdeild ákvörðun. Markmið Nató var skýrt. Það var stofnað til höfuðs Sovétríkjunum, til varnar lýðræðinu í Evrópu. Við skipuðum okkur í sveit með vestrænum lýðræðisríkjum í stað þess að halla okkur að Sovétríkjunum. Blessunarlega.

Þegar ég hóf feril minn á þingi fyrir rétt tæpum 20 árum síðan var bandalagið 50 ára. Með falli múrsins og inngöngu þjóða í Nató sem áður tilheyrðu Varsjárbandalaginu var undirstrikað að hugsjónir um vestrænt lýðræði og markaðshagkerfi hafði sigrað. Gömlu austur Evrópuþjóðirnar höfðu þá leitað til Nató ekki síst á grundvelli 5. greinar stofnsáttmálans sem segir til um, eins og við þekkjum, að ef ráðist verði á eitt ríki Nató þýðir það árás á þau öll. Með þessu vildu þau einnig fjarlægja sig með afgerandi hætti frá Rússlandi og þeim stjórnarháttum sem þar voru.

Í tilefni af hálfrar aldar afmælinu fullyrtu ýmsir í umræðunni gjarnan að með lokum Kalda stríðsins hafi tilgangur Nató brostið og hagsmunir og sýn aðildarríkjanna á ógnir orðnar ólíkar. Oftar en ekki hljómuðu þessar raddir frá sömu uppsprettu og höfðu í gegnum tíðina séð Nató allt til foráttu – og jafnvel ekki náð sér að fullu eftir fall kommúnismans. Tregi og eftirsjá liðinna tíma þessara hópa á 50 ára afmælinu virtist móta að einhverju afstöðuna gagnvart varnarbandalaginu. Það sama gilti í raun á 60 ára og nú 70 ára afmælinu; ótrúlegt en satt þá er þessi tónn enn sleginn.

Í lok mars 1999 var ég í Hvíta húsinu ásamt góðu fólki sem vann á fjölmiðlum en við vorum viðstödd blaðamannafund Joe Lockhart fjölmiðlafulltrúa Clinton bandaríkjaforseta. Óvænt breyttist fundurinn í blaðamannafund forsetans sem lýsti yfir, samtímis og Tony Blair, loftárásum Nató á Kosovo.

Þetta fimmtugusta aldursár var afdrifaríkt í sögu bandalagsins og aðgerðir þess á Balkanskaga mörkuðu að vissu leyti tímamót. Aðgerðirnar höfðu það að markmiði að stuðla að friði, fara gegn hræðilegri þjóðernishreinsunarstefnu Milosovic, veita Kosovo-Albönum á flótta tækifæri til að snúa aftur til síns heima í frið og öryggi og finna varanlega lausn á stöðu Kosovo. Við skulum hafa hugfast að áður hafði alþjóðasamfélagið og Nató reynt allt til að stuðla að friðsamlegri lausn á svæðinu. Það var hins vegar nauðsynlegt að sýna fram á að samingaviðræður voru studdar af sannfærandi hernaðarmætti. Það voru mikilvæg skilaboð.

Að mínu mati sannaði Nató þar aftur mikilvægi sitt – með því að standa saman gegn þjóðernisöfgum og stríðsherrum enda áttu allar þjóðir mikið undir því að viðhalda öryggi og stöðugleika á svæðinu, fyrir Evrópuþjóðir var það sérlega mikilvægt.

Bæði þá og 10 árum síðar eða á 60 ára afmæli Nató var spurningin uppi um tilgang bandalagsins, óvinurinn var ekki einn heldur athyglinni beint að nýjum hættum og ógnunum, hvort sem það var á sviði hryðjuverka, þjóðernisátaka eða skipulagðrar glæpastarfsemi.

Og þá líkt og nú á 70 ára afmæli Nató er heimurinn breyttur og ógnir margvíslegar. Hætturnar eru þarna, jafnvel verulegar en eru kannski ekki alltaf jafn augljósar og á árum áður.

Áhersla á norðurslóðir

Ísland leggur sem fyrr réttilega áherslu á norðurslóðir og tryggja þurfi öryggi á svæðinu auk borgaralegs samstarfs á ýmsum sviðum.

Áhersla á Norðurslóðir hefur á síðustu árum ekki minnkað enda þýðing svæðisins aukist verulega, meðal annars vegna væntanlegrar opnunar siglingaleiða og hvernig hægt er að tryggja öryggi á mikilvægu svæði.

Þótt þróun á opnun siglingaleiða milli heimsálfa á Norðurslóðum taki nokkurn tíma er ljóst að um mikla hagsmuni er að ræða sem tengdir eru ferðaþjónustu, flutningum og ekki síst vannýttum auðlindum.

Í dag gera bandalagsþjóðir okkar í Nató sér grein fyrir þýðingu þess að vakta svæðið vel og tryggja öryggi enda ágangur ríkja eins Kína og Rússlands aukist mjög.  Og áhugi Rússa er markviss meðal annars vegna olíu- og gasvinnslu en talið er að um 25-30% ónýttra auðlinda sé að finna á slóðum norðurskautsins. Við vitum einnig að Rússar mun verja sína grundvallarhagsmuni ef á þarf að halda á hættutímum. Það þýðir aukin spenna á svæðinu og viðbúnaður.

Í samhengi við viðbúnað má m.a. nefna endurtekin flug rússneskra flugvéla inn á loftrýmissvæði Nató og meiri viðveru á Norður-Atlantshafinu, auðvitað ekkert í samanburði við hvernig umferð þeirra var á tíma kalda stríðsins en engu að síður er til að mynda endurræsing 2.flota bandaríkjanna til marks um að fókusinn er sterkari á þetta svæði en áður.

Mig langar örstutt að minnast á strand stóra skemmtiferðaskipsins fyrir ströndum Noregs nú nýlega. Hvað ef slíkt stórslys gerist á norðurslóðum? Ef bjarga þyrfti hundruðum manna af víðáttumiklum víðernum norðurslóða er sterkara fyrir okkur að vera saman með öðrum þjóðum en í sundur, geta brugðist strax við, haft mannafla og tæki til þess.

Gildi alþjóðasamstarfs

Við skulum hafa hugfast að afstaða Íslands til samvinnu og samstarfs við önnur ríki mun ráða miklu um þjóðarhag. Það gildir ekki síst um varnir og öryggi landsins.

Sérhvert skref sem við Íslendingar höfum tekið í alþjóðasamvinnu hvort sem það er í gegnum EFTA, EES eða Nató hefur styrkt okkur sem þjóð og eflt efnahagslega velferð landsmanna. Það á líka við um afmælisbarn dagsins, Nató. Öryggi okkar og aðild að bandalaginu hefur reynst okkur giftudrjúg. Svo ekki sé minnst á hversu verðmætasköpun í sinni víðustu mynd í gegnum öryggi og frið, er ómetanleg.

Þegar við Íslendingar stóðum í miklum útistöðum við Breta (og hluta til Þjóðverja) vegna fiskveiðilögsögunnar var reynt eftir fremsta megni af andstæðingum Nató hér heima fyrir að gera aðild okkar tortryggilega og magna upp reiði gagnvart bandalaginu vegna framkomu Breta í okkar garð.

Þrýst var á að kalla heim sendiherra okkar hjá Nató þegar barátta fyrir útfærslu okkar á efnahagslögsögunni upp í  200 mílur stóð sem hæst. Sagan sýnir hinsvegar að með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu lögðum við grunn að því að efla efnahagslegt sjálfstæði landsins. Seta okkar við borðið, full þátttaka og kynning á sjónarmiðum okkar reyndist okkur ómetanleg og leiddi til þess að við náðum samningum um full yfirráð yfir auðlindum okkar. Á okkur var hlustað, – sætið við borðið reyndist íslensku þjóðinni happadrjúgt.

Víðtæk samstaða innan varnarsamstarfs þar sem allar stærðir og gerðir af þjóðum eru óhræddar við að segja sína skoðun og tala fyrir hagsmunum lýðræðis og frelsis, er dýrmæt. Duttlungar leiðtoga innan samstarfsins, austan hafs sem vestan mega þó ekki ráða því hvernig málum Nató til framtíðar verður háttað; allt eftir því hvernig stuði þeir eru í á Twitter hverju sinni. Sveiflukennt viðhorf leiðtoga stórþjóðar gagnvart vinaþjóðum í Nató er ekki boðlegt. Slík ólund getur þá virkað sem veikleiki á samstarf.

Hætta í netheimum

Í því samhengi var hinsvegar áhugavert að heyra nýlega á fundum Varnar- og öryggisnefndar Natóþingsins með Kyrrahafsflota Bandaríkjanna, landher, sjórher, flugher að þeir óskuðu þess að svipað fyrirkomulag og er í Nató, gilti líka um Kyrrahafssvæðið. Stefna, sýn, agi og samstarf Natóríkja var í þeirra huga ekki bara eftirsóknarvert heldur ákjósanlegt.

Á þessum fundum voru fleiri skilaboð skýr. Kína er skipulega að víkka út starfsemi sína og yfirráð með markvissum aðgerðum. Hvort sem þær eru í formi diplómatískra aðgerða eða hernaðaruppbyggingar. Ummerkin við Kyrrahaf eru augljós. Allt frá Suður- Kínahafi með tilbúnum eyjum yfir í að margfalda her- og skipakost sinn allan.

Eins og við vitum eru einnig miklar áhyggjur innan Natóherjanna af misnotkun og misbeitingu upplýsinga, falsfréttum, afskiptum af innanríkismálum í gegnum netið, netógnum með tilheyrandi óöryggi í sinni víðustu mynd – oftar en ekki skipulagt af löndum eins og Kína og Rússlandi eða stórum glæpahringjum.  Einn hershöfðinginn orðaði það þannig að annað kaldastríð væri í raun hafið, það væri bara í gegnum netið.

Hvort sem það er rétt eða ekki þá lýsir það engu að síður þeim veruleika, nýja veruleika sem við stöndum frammi fyrir.

Hvað Ísland varðar þá eru þessar ógnir hér sem annars staðar. Uppbygging innviða, netið, allt sem því tengist og síðan umhverfismál á norðurslóðum eru til að mynda risamál. Fyrir litla þjóð eins og okkur hefur sjaldan verið jafn brýnt að vera í samstarfi og samvinnu við aðrar þjóðir til að ráða fram úr þeim risavöxnu viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir. Ein og sér værum við ekki til mikils megnug en saman og þá ekki síst í gegnum reynslu okkar af varnarsamstarfinu höfum við sýnt styrkleika til að ráðast gegn ýmsum þeim ógnunum sem nútíminn – og jafnvel framtíðin lætur skína í.

Lítt skiljanleg afstaða VG

Þegar horft er til þess að allt okkar alþjóðasamstarf, þ.m.t. aðildin að Nató, hefur fært okkur fram á við í átt að auknu efnahagslegu og lýðræðislegu öryggi sem styrkt hefur fullveldið, er lítt skiljanlegt að horfa upp á tillögu þingmanna forystuflokksins í ríkisstjórn, Vinstri grænna.

Tillaga nú um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild okkar að Nató þar sem allur rökstuðningur með henni gengur hreint og beint út á andúð gegn varnarsamstarfinu, er ekki bara heimskuleg heldur jafnvel hættuleg. Vegið er að styrkleika okkar mikilvæga alþjóðasamstarfs og varnarsamvinnu. Ekki nema flutningsmenn telji orð þeirra með öllu merkingarlaus.

Við skulum hafa það skýrt – ef við stæðum frammi fyrir sömu ákvörðun í dag yrði þjóðin spurð enda útilokað í dag að taka ákvörðun um aðild að slíku alþjóðasamstarfi án aðkomu þjóðarinnar. Reynslan hefur kennt okkur það.

Ákvörðun um aðild að Nató liggur hins vegar fyrir, nú til 70 ára og hefur verið til farsældar fyrir þjóðina í þann tíma, eins og ég hef þegar komið inn á. Við höfum tekist á herðar alþjóðlegar skuldbindingar sem í dag væri beinlínis varasamt út frá þjóðaröryggi að hverfa frá.

Við munum til að mynda ekki geta tryggt öryggi meðal annars á Norðurslóðum án aðkomu Nató og þeirrar sérþekkingar og stuðnings sem við fáum þaðan – reyndar í mjög mörgum málum. Aðildin að Nató er því jafnmikið öryggismál, umhverfismál, lýðræðismál, fullveldismál fyrir þjóðina í dag og hún var á sínum tíma. Áskoranirnar eru bara annars eðlis.

Að leggja fram tillögur er réttur hvers þingmanns. Það er hins vegar ábyrgðarhluti að forystuflokkur í ríkisstjórn, og drjúgur þorri þingmanna hans, treystir sér ekki lengur til að styðja við þjóðaröryggisstefnu Íslands sem m.a. ríkisstjórnarsáttmálinn byggir á. Sáttmála sem þessir sömu þingmenn utan tveggja (þeir eru þó samkvæmir sjálfum sér) höfðu samþykkt.

Í þjóðaröryggisstefnunni segir meðal annars –  Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja. – Þetta er nokkuð skýrt.

Og vel að merkja þá er forsætisráðherra sá ráðherra sem ber meginábyrgðina á því að þjóðaröryggisstefnu Íslands sé fylgt eftir. Að hún sé framkvæmd. Er það trúverðugt eftir þetta nýjasta útspil þingmanna VG?

Áætlanir þeirra ríkja sem nú ganga hvað harðast fram á bak við tjöldin í afskiptum sínum að innanríkismálum annarra landa, miða oftar en ekki við að hola að innan samstöðu þjóða um tiltekin mál, eins og varnar- og öryggismál. Tillaga þingmanna Vinstri grænna fellur vel inn í það leikjaplan allt. Að átta sig ekki á því væri barnsleg einfeldni.

Ef vanlíðan tiltekinna þingmanna innan stjórnarsamstarfs er svona mikil, vegna þess að hver hugsjónastólpinn á fætur öðrum hefur fallið, þá má finna þeirri vanlíðan og örvinglun útrás með ýmsum hætti. Hún er hins vegar ekki réttmætur grundvöllur til kollsteypu á utanríkisstefnu Íslands.

Þetta mál hlýtur að vera rætt á stjórnarheimilinu og vera tekið upp af þeim flokkum sem réttilega og af einurð studdu farsæla aðild Íslands að Nató. Nú reynir á þá. Við sem erum stuðningsfólk vestrænnar samvinnu og aðildar okkar að varnarsamstarfinu ætlumst til þess að forsætisráðherra segi skýrt hvaða stefnu hún sem þjóðarleiðtogi styðji á sviði öryggis- og varnarmála – og hafi stuðning til. Hér gildir ekkert fum, ekkert fát eða útúrsnúningar til heimabrúks. Heimsbyggðin fylgist með, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Verum virkir þátttakendur

Vera okkar í Nató hefur sýnt að við eigum ekki að óttast alþjóðasamstarf – miklu heldur eigum við að vera virkir þátttakendur.

Í varnarsamstarfinu höfum við einnig haldið á lofti sjónarmiðum sem okkur Íslendingum eru oft ofarlega í huga og ljáð mikilvægum málum rödd okkar, hvort sem það er á sviði mannúðar eða jafnréttis.

Við eigum að gera okkar til að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar eru, og þora taka skýra afstöðu þegar okkur finnst bandalagið feta rangan veg eða jafnvel taka rangar ákvarðanir. En fyrst og síðast eigum við af fullri einlægni og einurð að halda áfram þátttöku okkar í farsælu varnarsamstarfi til sjötíu ára.  Þannig stuðlum við að áframhaldandi friði, frelsi og lýðræði í Evrópu – og um heim allan.’

Til hamingju með árin sjötíu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …