Home / Fréttir / Þörf Tumps fyrir já-menn er alkunn

Þörf Tumps fyrir já-menn er alkunn

 

Donald Trump og Jim Mattis
Donald Trump og Jim Mattis

Aðalfulltrúi forseta Bandaríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams hefur sagt stöðu sinni lausri vegna stefnubreytingar Donalds Trumps og brottkvaðningar bandarískra hermanna frá Sýrlandi.

Brett McGurk tilkynnti afsögn sína föstudaginn 20. desember tveimur mánuðum áður en hann átti að láta af störfum. Hann hverfur úr embætti sínu 31. desember 2018. Hann hefur farið fyrir hópi meira en sjötíu bandamannaríkja Bandaríkjanna sem myndað hafa sameiginlegan hóp gegn hryðjuverkasamtökunum. Fyrir rúmri viku flutti hann ræðu í utanríkisráðuneytinu í Washington og skýrði hvernig Bandaríkjastjórn ætlaði standa áfram að hernðarlegum umsvifum sínum í Sýrlandi.

„Ég held að fullyrða megi að Bandaríkjamenn verði áfram á þessum slóðum nú eftir að kalífaveldið hefur verið brotið á bak aftur, allt þar til hlutir verða komið í það horf að tryggt sé að um varanlegan ósigur sé að ræða,“ sagði McGurk.

Hann sagðist telja ábyrgðarlaust að segja, jæja, nú höfum við brotið þá á bak aftur svo að við getum farið. Allir sem þekktu til mála hlytu að telja svo vera.

Miðvikudaginn 19. desember gaf Trump hins vegar út fyrirmæli um að bandarískur herafli skyldi kallaður frá Sýrlandi. Hann sagði síðan á Twitter að stríðinu við Ríki íslams væri lokið og hryðjuverkasamtökin hefðu tapað.

Með afsögn sinni fylgdi McGurk fordæmi James Mattis varnarmálaráðherra . Afsögn ráðherrans dregur víðar dilk á eftir sér eins og kemur fram í greininni sem birt er hér fyrir neðan.

Dov S. Zakheim var aðstoðarvarnarmála Bandaríkjanna (2001-4) og vara-aðstoðarvarnarmálaráðherra (1985-87). Hann er varaformaður hugveitunnar Center for the National Interest. Þessi grein hans birtist á vefsíðu The National Interest laugardaginn 22. desember:

Enn einu sinni hefur Donald Trump látið „tilfinningu“ sína ráða, að þessu sinni hefur hún þó leitt hann í gönur. Ákvörðun Trumps um að kalla hermennina frá Sýrlandi er ekki aðeins reiðarslag fyrir rúmlega sjötíu bandamenn sem taka þátt í samstarfinu gegn Ríki íslams undir forystu Bandaríkjamanna heldur einnig fyrir Kúrda sem hafa fórnað miklu blóði í baráttunni við íslamska öfgamenn og Ísraela sem hafa treyst á viðveru Bandaríkjamanna í Sýrlandi til að koma í veg fyrir að Íranar komi sér fyrir við landamæri Ísraels.

Fyrst og síðast virðist þetta þó hafa komið Jim Mattis varnarmálaráðherra í opna skjöldu. Mattis hefur lagt sig mjög fram um að viðhalda trúverðugleika Bandaríkjamanna gagnvart bandamönnum þeirra og sýna andstæðingum Bandaríkjanna að styrkur þeirra hafi ekki minnkað. Í afsagnarbréfi sínu sagði Mattis: „við verðum að koma fram af staðfestu og án tvíræðni gagnvart þeim ríkjum sem gæta strategískra hagsmuna sem skapa vaxandi spennu gagnvart okkur. Það er ljóst að til dæmis Kínverjar og Rússar vilja koma á heimsskipan sem fellur að einræðislegum stjórnarháttum þeirra – með því að öðlast neitunarvald gagnvart öðrum þjóðum á sviði efnahags- alþjóða- og öryggismála – til að halda fram eigin hagsmunum á kostnað nágranna sinna, Bandaríkjamanna og bandamanna okkar. Þess vegna verðum við að nota öll tæki á valdi Bandaríkjamanna til að stuðla að sameiginlegum vörnum.“

Trump lítur greinilega öðrum augum á heiminn. Hann gerir sér dælt við Vladimir Pútin sem var líklega fyrstur þjóðarleiðtoga til að hrósa Trump fyrir að kalla herinn frá Sýrlandi og leyfa þar með Rússum að ráða framtíð landsins. Hann hefur lyft Kim Jong-un á stall án þess að hann hafi unnið neitt til þess. Hann hefur reynt að verða við þráhyggjulegri ósk Recips Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta um að fá erkióvin sinn Fethullah Gülen framseldan til Tyrklands. Trump virðist verja meiri tíma í að gera einræðisherrum til hæfis en til að styðja lýðræðissinna.

Þegar Trump skýrði brottför Mattis á þann veg að „að hann færi á eftirlaun“ var það bæði hlægilegt og í ætt við margar aðrar yfirlýsingar hans. Mattis sagði af sér og ástæðu þess má lýsa með því að vitna til orða sem Howard Beale lét falla í eftirminnilegu kvikmyndinni Network frá 1976 þegar hann sagðist vera „bálösku reiður og … læt ekki bjóða mér þetta lengur“. Það er ljóst, að minnsta kosti í mínum huga, að varnarmálaráðherrann sagði af sér vegna ákvörðunar forsetans um Sýrland. Þegar ég hitti hann síðast fyrir rúmri viku lék hann á als oddi; það lá alls ekki í loftinu að hann væri í þann mund að hætta. Andstætt því sem hvíslað er í Washington þá hafði hann skipulagt fundi eftir áramótin. Þegar það gerðist hins vegar að Trump kollvarpaði allt í einu Sýrlandsstefnu sinni og gerði það á Twitter  í stað þess að hafa óskað eftir markvissri greiningu og að loknu samráði við helstu ráðgjafa sína í alþjóðamálum og þjóðaröryggismálum varð staða Mattis enn erfiðari en hún hafði áður verið í ruglingslegri stjórnsýslunni þar sem hann gegndi lykilhlutverki. Vegna þess að hann er vandur að virðingu sinni og gegndi þessu embætti aðeins til að þjóna landi sínu í enn eitt skiptið gerði hann það eina rétta og sagði af sér.

Nú er alkunna að Trump vill hafa já-menn í kringum sig. Hann kann að vilja einhvern sem sættir sig mun betur við uppátæki sín en Jim Mattis. Forysta fyrir varnarkerfi Bandaríkjanna krefst hins vegar meira en já-manns. Ekki endilega fjögurra stjörnu hershöfðingja en enginn getur leitt háþróaðasta og öflugasta hernaðarkerfi heims án töluverðrar þekkingar, reynslu og trúverðugleika, þetta hefur marga skort sem hlotið hafa tilnefningu Trumps. Enginn efast um að einhver kemur í stað Mattis, hvort sá fari í fötin hans kemur í ljós.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …