Home / Fréttir / Þörf á nýjum öryggisáætlunum í N-Evrópu vegna atburða í Hvíta-Rússlandi

Þörf á nýjum öryggisáætlunum í N-Evrópu vegna atburða í Hvíta-Rússlandi

8

Blaðamaðurinn Patrik Oksanen, sem var um tíma ESB-fréttaritari sænska ríkissjónvarpsins SVT í Brussel og hefur auk þess látið sænsk og alþjóðleg öryggismál til sín taka, birtir föstudaginn 28. ágúst grein á vefsíðunni EuObserver í Brussel undir fyrirsögninni: Hvar er plan B í öryggismálum Norður-Evrópu?

Í upphafi greinar sinnar segir Oksanen að regluverk evrópska öryggiskerfisins riðlist hraðar og hraðar. Vegna hraðans sé erfitt að átta sig á hvað sé að gerast og í hverju hætturnar felist eins og í Hvíta-Rússlandi. Þá segir:

„Alexander Lukasjenko. einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, reynir að dreifa athygli frá mótmælunum eftir kosningarnar með því að fara í einkennisbúning og ala á grunsemdum um að NATO, einkum Pólverjar og Litháar, ógni landinu.

Hervæðing og hernaðarleg umsvif á Eystrasalti eru á háu stigi. Sænski herinn hefur opinberlega skýrt frá auknum viðbúnaði sínum, hann er nú á stigi sem ekki hefur sést síðan í stjórnarkreppunni í Moskvu árið 1991.

Leiði mistök til þess að skoti verði hleypt af yfir landamæri eða tvær hervélar lendi í árekstri gætu afleiðingarnar orðið hörmulegar.

Það er skiljanlegt og aðdáunarvert að íbúar Hvíta-Rússlands vilji frelsi 30 árum eftir að nágrannar þeirra fengu það. Mótmælin eru áhrifamikil vegna þátttöku, skipulags og hugrekkis og þau eiga skilið að við styðjum þau heilshugar í þágu friðar og lýðræðis.

Til hins ber þó að líta að allir við borðið hafa slæm spil á hendi.

Lukasjenko hefur tapað andlitinu, fyrst eftir að stela kosningunum fyrir allra augum og síðan með því að beita ofbeldi án þess að buga almenning.

Hann hangir nú við völd háður Vladimir Pútin Rússlandsforseta. Haldi almenningur sig ekki frá götum og torgum á Lukasjenko enga aðra leið en beita meiri kúgun. Hún kynni að breytast í blóðbað.

Spilin á hendi Pútins eru ekki heldur góð. Samband hans við Lukasjenko er ekki mjög einlægt og geti almenningur ýtt forseta til hliðar með mótmælum eftir „kosningar“ í Minsk gæti hann gert það í Moskvu.

Þess vegna vill Pútin að mótmælabylgjan gangi yfir áður en hafist verður handa við að skipta um valdhafa í Minsk.

Gerðist það á hinn bóginn að andstaðan í Hvíta-Rússlandi hvetti til samskonar hreyfingar til vesturs og gerðist í Úkraínu er líklegt að Rússar sendu heraflann sem er í viðbragðsstöðu við landamærin yfir þau.

Sama kynni að gerast ef Lukasjenko missti stjórn á málum og það yrði blóðbað. Hernaðarleg íhlutun Rússa án almenns stuðnings yrði hættuleg og kallaði á meiri þvinganir af hálfu Vestursins.

Stjórnarandstaðan hefur einnig slæm spil á hendi.

Hún er sameinuð um að Lukasjenko verði að fara, pólitískir fangar fái frelsi og gengið verði til frjálsra og heiðarlegra kosninga. Þegar frá þessu er litið er stjórnarandstaðan langt frá að vera einsleit.

Hvað gerðist ef Lukasjenko nyti aðstoðar Rússa við að hafa stjórn lögreglu og hers áfram á sinni hendi og sæti því áfram við völd?

Hve lengi tekst stjórnarandstöðunni að kalla saman fólk friðsamlega ef vonir um tafarlausa breytingu minnka? Auk þess skapar ofbeldi hættu á að Rússar komi á vettvang.

Spilin í höndum ESB og Vestursins eru einnig slæm, þvinganir breyta ekki stöðunni í Minsk.

Atburðirnir í Hvíta-Rússlandi eru ekki eina dæmið um aukna óvissu í Evrópu.

Bandaríkjastjórn hefur kynnt samdrátt herafla síns í Þýskalandi, hitt er þó verra fyrir okkur í norðri að það verður einnig fækkun í Noregi með brottflutningi 700 bandaríska landgönguliða þaðan.

Mikilvægt strategískt fælingarlið hverfur frá Norður-Evrópu sem nær yfir norðurslóðir (e. Arctic) og Eystrasaltssvæðið þegar Bandaríkjastjórn skilur aðeins eftir 20 landgönguliða þar.

Við bætist síðan spenna milli NATO-ríkjanna Grikklands og Tyrklands á Miðjarðarhafi og óvissa um evrópska öryggiskerfið verði Trump endurkjörinn forseti Bandaríkjanna.

Á síðara kjörtímabili Trumps gæti komið til úrsagnar Bandaríkjanna úr NATO eins og John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi, hefur gefið til kynna.

Helsinki-sáttmálinn frá 1975 og Parísar-sáttmálinn frá 1990 kynnu að verða hafðir að engu tækist Pútin að koma á nýrri skipan öryggismála sem snerist um hagsmuni stórvelda og hundsaði fullveldi smáríkja.

Gerðist þetta félli hluti Eystarsalts undir áhrifasvæði Rússa gæti ESB ekki fyllt tómarúmið eftir Bandaríkin.

ESB hefur ekki sýnt að það geti tryggt öryggi.

Sé litið á málin úr norðri, þaðan sem stutt er til Rússlands, er ekki unnt að leita skjóls hjá forysturíkjum ESB, Frakklandi og Þýskalandi, í ofviðri.

Af sögulegum ástæðum stíga Þjóðverjar varlega til jarðar þegar rætt er um aðild að hernaðaraðgerðum auk þess er þar enginn pólitískur vilji til fælingaraðgerða.

Stefnu Emmanuels Macrons Rússlandsforseta um að endurræsa tengsl við Rússa mætti, vægt orðað, lýsa sem innihaldslausri til þessa.

Þegar öryggi dvínar á þennan hátt í Evrópu er brýnt fyrir stjórnendur Norðurlanda og Eystrasaltslanda að íhuga hvað þeir geta gert til að plan A, sem nú ríkir, sé varanlegt sama hvað gerist, þeir verða jafnframt að hafa alvöru hugmynd um plan B og plan C.

Skilyrði til að framkvæma þessar áætlanir á hættustund verður að setja með góðum fyrirvara áður en þeirra verður brýn þörf. Sé ráðist í undirbúning fyrir plön B og C eykur það skilning á stöðunni og kynni jafnvel að leiða til þess að plan A dugi.

Menn geta þó líklega hætt að láta sig dreyma um að þeir heyri forseta, forsætisráðherra og utanríkisráðherra ræða plön B og C opinberlega.“

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …