Home / Fréttir / Þórdís Kolbrún ræðir við finnska ráðamenn í Helsinki

Þórdís Kolbrún ræðir við finnska ráðamenn í Helsinki

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanrikisráðherra ræðir við Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, í Helsinki 29. mars 2022.

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, bauð Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til Helsinki 29. og 30 mars. Efndu þau til sameiginlegs blaðamannadundar eftir fund sinn þriðjudaginn 29. mars.

Þórdís Kolbrún hittir einnig Sauli Niinistö Finnlandsforseta og Matti Vanhanen þingforseta á meðan hún dvelst í Helsinki.

Í fréttatilkynningu um heimsóknina segir finnska utanríkisráðuneytið að í ár séu 75 ár liðin frá því að Finnar og Íslendingar tóku upp stjórnmálasamband.

Samskipti ríkjanna eru náin á norrænum vettvangi og urðu enn meiri þar eftir 2009 þegar norrænt varnarmálasamstarf var formgert með NORDEFCO.

Finnar sendu hingað orrustuþotur ásamt Svíum til loftrýmisgæslu undir forræði norska flughersins snemma árs 2014, áður en Rússar innlimuðu Krímskaga.

Eftir að Rússar hófu að herja á Úkraínumenn fyrir átta árum hafa Finnar (og Svíar) sífellt færst nær NATO samhliða því sem þeir efla tvíhliða samstarf sitt í varnarmálum og leggja sérstaka rækt við samningsbundið samband við Bandaríkjamenn.

Eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 er aðild Finna að NATO ofarlega á dagskrá finnskra stjórnmála. Í skoðanakönnunum segjast meira en 60% Finna styðja aðild að NATO.

Finnlandsforseti gegnir mikilvægu stjórnarskrárbundnu hlutverki við mótun utanríkis- og öryggismálastefnu Finnlands. Sauli Niinistö forseti segist hafa gert upp hug sinn gagnvart NATO-aðild. Hann vill ekki upplýsa um afstöðu sína á meðan málið er til umræðu á finnska þinginu.

Undanfarið hefur forseti Finnlands, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann rætt við ráðamenn margra NATO-ríkja. Sæki Finnar um aðild að NATO verða öll 30 ríki bandalagsins að samþykkja umsókn þeirra.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …