Home / Fréttir / Þjóðverjar vilja aukið eftirlit með myndavélum

Þjóðverjar vilja aukið eftirlit með myndavélum

Almenn öryggisleit í Þýskalandi.
Almenn öryggisleit í Þýskalandi.

Ný könnun í Þýskalandi á vegum YouGov sýnir að 60% Þjóðverja vilja auka eftirlit með myndavélum á götum og torgum. Niðurstaðan var birt sunnudaginn 25. desember en könnunin var gerð eftir að vöruflutningabíl var, 19. desember, ekið inn í mannfjölda á jólamarkaði í Berlín, 12 létust og um 50 særðust.

Þá vilja 73% Þjóðverja að fjölgað verði í lögreglunni.

Engar eftirlitsmyndavélar voru við jólamarkaðinn á Breitscheidplatz skammt frá Kaiser Wilhelm minningarkirkjunni.

Talið er að lögreglunni hefði gengið betur að hafa upp á ódæðismanninum, Ansi Amri, ef hún hefði haft aðgang að myndum úr eftirlitsvélum. Hann slapp og komst til Mílanó á Ítalíu þar sem lögregla skaut hann til bana aðfaranótt föstudags 23. desember, fjórum dögum eftir árásina í Berlín.

Þýska ríkisstjórnin samþykkti í fyrri viku frumvarp til laga þar sem gert er ráð fyrir auknu eftirliti á almannafæri þrátt fyrir andstöðu staðaryfirvalda í Berlín sem telja ótímabært að grípa til slíkra ráðstafana.

Kristilegi demókratinn Thomas De Maizière, innanríkisráðherra Þýskalands, hefur hvatt ráðamenn í Berlín til að taka afstöðu sína til eftirlitsmyndavéla til „tafarlausrar endurskoðunar“.

Í könnun YouGov kom fram að helmingur Þjóðverja vill að þýski herinn, (Bundeswehr) verði kallaður á vettvang séu hryðjuverk framin. Nú hefur lögreglan heimild til að leita til hersins en aldrei hefur reynt á heimildina.

Í mars 2017 er ráðgert að lögregla og her efni til fyrstu sameiginlegu æfingar sinnar.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …