Home / Fréttir / Þjóðverjar verjast tölvuárásum með aðstoð annarra ESB-ríkja

Þjóðverjar verjast tölvuárásum með aðstoð annarra ESB-ríkja

images-26

Þjóðverjar búast nú til varnar gegn tölvuþrjótum vegna kosninganna til sambandsþingsins í september. Þeir hafa fengið önnur ESB-ríki í lið með sér. Á fundi utanríkisráðherra ríkjanna í Lúxemborg mánudaginn 19. júní var samþykkt að sameiginlega mundu ríkin grípa til ýmissa pólitískra aðgerða til að vinna gegn tölvuárás á eitt þeirra.

Í yfirlýsingu utanríkisráðherrafundarins sagði að sameiginlegt svar ESB-ríkjanna við óvinveittum tölvuaðgerðum tæki mið af eðli aðgerðanna, umfangi þeirra, tímalengd, ákafa, útfærslu og áhrifum á almenna tölvuvirkni.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle sagði að ráðherrarnir boðuðu gagnaðgerðir sem gætu beinst gegn einstaklingum, hópum fólks, fyrirtækjum eða ríkisstjórnum með ferðabanni, frystingu eigna og takmörkunum á viðskiptum.

Þýska ríkisstjórnin sendi í maí viðvörun til stjórnmálaflokka landsins og hvatti þá til að gera sérstakar ráðstafanir til að verja tölvukerfi sín gegn árásum. Var vísað til reynslu Bandaríkjamanna og Frakka. Þegar þjóðirnar gengu til kosninga birtust fréttir um tölvuárásir að undirlagi Rússa til að hafa áhrif á gang kosningabaráttunnar og úrslit hennar.

Grunur leikur á að fyrir tveimur árum hafi tölvuþrjótar með stuðningi Rússa brotist inn í net-pósthólf þýskra þingmanna og síðan beint spjótum sínum að stjórnmálaflokkum landsins.

Hans-Georg Maassen, yfirmaður þýsku heima-leyniþjónustuna, sagði snemma í maí að „miklu magni gagna“ hafi verið stolið í tölvuárásunum.

Heimild: New Europe

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …