
Lítill hluti Þjóðverja telur pólitísku ákvörðunina um að taka á móti hundruð þúsunda farand- og flóttamanna landi og þjóð til gagns. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun þar sem aðeins 16% aðspurðra telja að komu fólksins fylgi meiri efnahagslegur hagnaður en vandamál. Þýska fréttastofan dpa segir frá þessu laugardaginn 26. desember.
Þegar spurt var hvaða áhrif vinsamleg afstaða þýskra yfirvalda gagnvart móttöku flóttafólks hefði á álit Þýskalands út á við töldu aðeins 20% að áhrifin yrðu jákvæð.
Í austurhluta Þýskalands þar sem vandinn við að taka á móti aðkomufólkinu er mestur telja aðeins 12% að móttaka fólksins muni auka hróður Þýskalands gagnvart öðrum þjóðum.
Mat sérfróðra er að um milljón manns hafi sótt um hæli í Þýskalandi á árinu 2015. Um 56% af þeim sem svöruðu í könnuninni telja þýska stjórnmálamenn ekki ráða við flóttamannakrísuna. Sé litið til bæja með innan við 5.000 íbúa eru 66% aðspurðra sannfærðir um vanmátt stjórnmálamannanna.
Mikilsmetin hagfræðistofnun í Kiel, IfW, sendi fyrr í desember frá sér skýrslu þar sem talið er að það kosti Þjóðverja 55 milljarða evrur að taka á móti hælisleitendum á árinu 2015. Þar er gert ráð fyrir að 30% aðkomufólksins snúi aftur til síns heima.
Talið er að 20% aðkomufólksins eigi erfitt með að finna starf í Þýskalandi.
Niðurstaða IfW er að það hafi ekki jákvæð áhrif á almenn lífskjör í Þýskalandi að allt þetta fólk komi til landsins. Ekki eru allir hagfræðingar sammála þessu. IfW segir að eftirspurn muni að líkindum aukast innan hagkerfisins en hið sama eigi við um félagsleg útgjöld. Aðrir hagfræðingar segja að í hópi aðkomufólksins séu margir ungir karlar sem verði drifkraftur hagvaxtar í samfélagi sem sífellt verður eldra.