Home / Fréttir / Þjóðverjar styðja NATO-aðild Finna og Svía

Þjóðverjar styðja NATO-aðild Finna og Svía

Sanna Marin, Olaf Scholz og Magdalena Andersson á fundi í Berlín 3. maí 2022.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hafa í tvo daga fundað í Schloss Meseberg skammt frá Berlín með Olaf Scholz Þýskalandskanslara um stríðið í Úkraínu og aðild norrænu landanna tveggja að NATO.

Á blaðamannafundi þriðjudaginn 3. maí sagði finnski forsætisráðherrann að þetta hefði verið hárréttur tími til að ræða við Þýskalandskanslara þar sem Finnar og Svíar stæðu frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum um öryggisstefnu sína. Viðræðurnar hefðu verið „einstakar“ og farið fram í trúnaði.

„Öryggisumhverfi okkar er hið sama og kostirnir í stöðunni innbyrðis nátengdir. Árás Rússa hefur gjörbreytt öryggisumhverfinu. Það verður aldrei stigið til baka,“ sagði Sanna Marin.

Rússar stefndu að heimi sem væri skipt í áhrifasvæði milli valdamiðstöðva. Þeir virtu augljóslega hvorki núverandi skipan öryggismála í Evrópu né alþjóðalög heldur reyndu þess í stað að skipa öðrum fyrir verkum.

Hún sagði Finna meta mikils forystu Þjóðverja í sameinuðu svari ESB-landanna til Rússa og sagði að þegar mætti sjá áhrif refsiaðgerða gegn Rússum en þær yrði að auka. „Forysta Þjóðverja er nú mikilvægari en nokkru sinni,“ sagði Marin á blaðamannafundinum.

Olaf Scholz sagði að Þjóðverjar mundu styðja aðild Finna og Svía að NATO. Enginn gæti fullyrt að Rússar kynnu ekki að ráðast á önnur lönd.

Magdalena Andersson sagði að 13. maí mundi sænska þingið kynna álit sitt og afstöðu í umræðunum um NATO-aðild Svía.

„Í álitinu verður fjallað um framtíðar samstarfsaðila Svía í varnarmálum, þar á meðal um NATO, allir kostir eru uppi á borðum,“ sagði Andersson.

Hún sagði Svía eina ákveða öryggis- og varnarmálastefnu sína en þeir hefðu náið samstarf og samráð við Finna.

Nú hafa nær því allir flokkar á finnska þinginu lýst stuðningi við NATO-aðild. Þess er þó beðið að Jafnaðarmannaflokkur forsætisráðherrans láti formlega til sín heyra, sömu sögu er að segja um Vinstra bandalagið sem ekki líkar við NATO-aðild.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …