
Í leiðara sínum þriðjudaginn 21. janúar fjallar danska blaðið Jyllands-Posten um leiðtoga- og ráðherrafund 11 ríkja og aðalritara Sameinuðu þjóðanna í Berlín sunnudaginn 19. janúar um stöðu mála í Líbíu.
Blaðið segir að þótt finna megi 50 atriði og ábendingar í niðurstöðum fundarins þurfi meira en venjulega bjartsýni til að halda að nú komist allt á rétta braut í norðurhluta Afríku.
Minnt er á að borgarastríð hafi verið háð í tæp sex í Líbíu og síðan 2011 sé litið til þess þegar Muammar Gaddafi var velt úr sessi og tekinn af lífi. Nú takist þar á Fayeez al-Serraj sem leiði stjórn sem njóti viðurkenningar að þjóðarétti og uppreisnarforinginn Khalifa Haftar sem njóti stuðnings ýmissa ólíkra afla á svæðinu. Tyrkir haldi Serraj á floti í Trípólí með hermönnum og hergögnum. Rússar styðji Haftar og einnig Frakkar þótt þeir láti ekki mikið á því bera. Gömlu nýlenduherrarnir, Ítalir, láti einnig að sér kveða en án mikils árangurs. Þessar tvær ESB-þjóðir, Frakkar og Ítalir, hafi látið Haftar í té vopn.
Ráðamenn engra þeirra þjóða sem hlut eigi að átökunum geti beitt sér þar í þágu friðar. Þess vegna sé það diplómatískur sigur fyrir Angelu Merkel og Þjóðverja að hafa fengið deiluaðila til fundar í Berlín.
Merkel hafi beitt þeirri aðferð sem gagnist henni vel, að sýna þolinmæði í samtölum í leit að leið sem sé fær bæði fyrir þá sem líta stórt á sig og hina sem eiga undir högg að sækja. Allir hafi fengið nóg af átökunum nema ef til vill Haftar hershöfðingi sem ræður mestum hluta landsins. Af nógu sé að taka þegar hugað sé að átökum í Sýrlandi, Jemen, Sahel-löndunum svonefndu, Malí, Búrkína Fasó og Níger, eilífðardeilunni milli Ísraela og Palestínumanna, Úkraínu, Íran og spennunni í Líbanon. Enginn þarfnist upplausnar í Líbíu og þess næstum óstöðvandi straums flótta- og farandfólks til Evrópu sem henni fylgir.
Blaðið segir að nú gangi Þjóðverjar fram sen heiðarlegir sáttasemjarar þótt þeir hafi lengi verið tregir til alþjóðlegs samstarfs á þann veg að aðrir gætu treyst á þátttöku þeirra, stóryrðum þeirra hafi sjaldan verið fylgt eftir með hervaldi eða pólitísku afli. Nú hafi þeim tekist að fá forseta Rússlands, Tyrklands, Frakklands og Egyptalands, forsætisráðherra Bretlands og Ítalíu, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, aðalritara Sameinuðu þjóðanna auk annarra til að sækja fund í Berlín. Fundurinn hafi verið vel undirbúinn andstætt því hvernig Frakkar og Ítalir hafi staðið að sambærilegum fundum.
Mikilvægasta niðurstaðan sneri að banni við sölu vopna til Líbíu. Þetta hefur verið reynt áður en með þátttöku jafnmargra vitna og nú er erfiðara en áður að hafa bannið að engu, segir Jyllands-Posten. Nú reyni fyrst á bannið. Þá sé ekki unnt að halda stríðandi fylkingum hvor frá annarri nema með milligöngu alþjóðlegs herliðs. Spurning sé hver sendi það á vettvang. Þjóðverjar?