Home / Fréttir / Þjóðverjar skilgreina hvaða vinstrimennska er refsiverð vegna G20-mótmælanna

Þjóðverjar skilgreina hvaða vinstrimennska er refsiverð vegna G20-mótmælanna

Rote Flora leikhúsið í Hamborg - griðastaður vinstrisinna.
Rote Flora leikhúsið í Hamborg – griðastaður vinstrisinna.

Í Þýskalandi er rætt um hvar eigi að draga mörkin milli þess sem er refsivert við mótmælaaðgerðirnar í Hamborg vegna G20-fundarins þar 6. og 7. júlí. Í blaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung birtist fimmtudaginn 13. júlí viðtal við Thomas Noetzel prófessor í stjórnmálakenningum og hugmyndasögu síðan árið 2002 við Philipps-Universität Marburg í Þýskalandi. Það fer hér í lauslegri þýðingu:

Herra Noetzel frá því að G20-leiðtogafundinum lauk er að nýju talað meira en áður um stöðuna á vinstrivængnum í Þýskalandi. Er í raun munur á vinstri-róttæklingum og vinstri-öfgamönnum?

Já, auðvitað. Róttæklingar vilja komast að rótum vandans og fallast því ekki á neina málamiðlun. Öfgamenn ganga einu skrefi lengra. Maður verður öfgamaður með því að fara með skoðanir sínar út á götur og torg. Öfgamaðurinn tekur róttæklinginn mjög alvarlega – hann hrindir hugmyndum hans í framkvæmd. Mér finnst annars miklu erfiðara að finna sniðmengi vinstri-róttæklinga og vinstri-öfgamanna.

Hvað felst í því?

Báðum hópum er sameiginlegt að þeir vilja kasta ríkjandi kerfi að fullu fyrir róða. Í því felst mikil hætta að mínu mati þar sem samúð með þessum hugmyndum hefur náð að dreifa sér víða um samfélagið. Þetta kom í ljós í G20-mótmælunum. Það má til dæmis nefna að vinstrisinnaði stjórnmálamaðurinn Jan van Aken [þýð: þýskur aðgerðasinni fyrir Greenpeace og sambandsþingmaður fyrir Die Linke, lengst til vinstri. Hann situr í utanríkismálanefnd sambandsþingsins og undirnefnd um afvopnunarmál] sýnir samúð með Rote Flora [þýð: hér er hópur vinstrisinna kenndur við gamalt leikhús í Hamborg sem er aðsetur hústökumanna og hefur áunnið sér orð um alla Evrópu sem samastaður vinstri-róttæklinga] þótt hann sé hvorki vinstri-róttæklingur né vinstri-öfgamaður.

Rote Flora segist vera vinstri-fullvalda. Hver er munurinn á vinstri-fullvalda og vinstri-rótæklingum og vinstri-öfgamönnum?

Vinstri-fullvalda leggja þunga áherslu á að þeir standi utan fylkinga. Þeir telja sig vera handan klassísks ágreinings vegna kapítalismans. Hjá þeim snýst málið ekki lengur um verkalýðsstéttina eða stéttabaráttuna. Hjá þeim fullvalda beinist athyglin á menningarlegum þáttum.

Hvað felst nákvæmlega í því?

Lítið á Rote Flora í Hamburg. Þar er stofnað til vinnustofa og fjöldamálsverða [frá ritstjórn: til slíkra málsverða er efnt reglulega og er málsverðurinn fáanlegur á innkaupsverði eða jafnvel niðurgreiddur]. Með þessu er verið að stjórnmálavæða hversdagslífið eða stunda „fyrstu-persónu pólitík“. Hér er horft til þess sem snertir þann sem á í hlut þótt stjórnmál séu í raun samfélagsmál. Lýsa mætti því sem gerðist í Hamborg sem útrás vinstri-öfga sjáflsdýrkunar.

Hvernig er unnt að tengja það samtökunum sem kalla sig Velkomin til vítis?

Í mínum huga er það hrein og klár öfgahyggja. Bara að vísa til vítis er með ólíkindum. Samtökin eru í grunnin róttæk. Þau breytast hins vegar í öfgasamtök um leið og þau fara með hugmyndir sínar út á götur og torg. Ég ítreka: Vinstri-öfgahyggja er vinstri-róttækni sem hrundið hefur verið í framkvæmd. Mótmælendunum var kappsmál að stigmagna átökin.

Öryggislögreglan talar aðeins um vinstri-öfgamenn en ekki vinstri-róttæklinga. Hvers vegna?

Ekki er enn unnt að sakfella menn einungis vegna skoðana sinna.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …