Home / Fréttir / Þjóðverjar senda þungavopn til Úkraínu

Þjóðverjar senda þungavopn til Úkraínu

Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýskalands.

Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýskalands, tilkynnti þriðjudaginn 26. apríl að þýska stjórnin mundi heimila að þýskir skriðdrekar yrðu til ráðstöfunar fyrir Úkraínustjórn og herafla hennar. Þar með breytti þýska stjórnin um stefnu en hún hefur verið treg til að láta Úkraínumönnum í té þungavopn.

Þýski ráðherrann kynnti stefnubreytingunni á fjölþjóðlegum fundi varnarmálaráðherra sem haldin var í bandarísku Ramstein-flugherstöðinni í Þýskalandi. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, boðaði til fundarins að lokinni för sinni til Kyív sunnudaginn 24. apríl.

Fjörutíu ríki sendu fulltrúa á Ramstein-fundinn til að ræða nauðsyn þess að efla varnarmátt Úkraínumanna.

Frakkar ætla að bjóða Caesar-fallbyssur sem draga 40 km og Bretar senda Starstreak-loftvarnaflaugar og skriðdreka.

Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz Þýskalandskanslari hefur sætt gagnrýni fyrir að neita að afhenda Úkraínumönnum þungavopn þrátt fyrir að boða „vatnaskil“ í þýskum öryggismálum í þingræðu 27. febrúar 2022 vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þýskir jafnaðarmenn eru sakaðir um að sýna tregðu til að hverfa frá slökunarstefnunni sem þeir hafa fylgt gagnvart Rússum.

Í þriggja flokka stjórninni sem Scholz leiðir með Græningjum og Frjálsum demókrötum (FDP) hefur kanslarinn átt nokkuð undir högg að sækja vegna rússastefnu jafnaðarmanna. Hann segist vilja forðast að stofna beinna átaka milli NATO og Rússa, kjarnorkuveldis.

Fréttastofan Agence France-Presse (AFP) sagðist þriðjudaginn 26. apríl hafa séð drög að skjali með samkomulagi þriggja þýsku stjórnarflokkanna sem þeir ætli að leggja fyrir þýska þingið til að tryggja ríkisstjórninni umboð til að afhenda Úkraínustjórn þungavopn.

Hótun Lavrovs

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði mánudaginn 25. apríl í samtali við rússneska fréttastofu að það væri „raunveruleg“ hætta á þriðju heimsstyrjöldinni . Orð ráðherrans féllu sama dag og ráðist var á skotmörk, birgðastöð hersins, innan landamæra Rússlands og talið að Úkraínuher ætti þar hlut að máli.

Lavrov gagnrýndi hvernig stjórnin í Kyív stæði að friðarviðræðum. Rússar legðu hart að sér að virða grundvallarregluna um beita alls ekki kjarnorkuvopnum.

„Þetta er lykilafstaða okkar og á henni er allt annað reist. Áhættan er umtalsverð á þessari stundu,“ sagði hann.„Ég ætla ekki að nota gerviforsendur til að magna þessa áhættu. Mörgum þætti það ágætt. Hættan er alvarleg, raunveruleg. Og við megum ekki vanmeta hana.“

Skömmu áður en Lavrov lét þessi orð falla höfðu flaugar verið notaðar til sprengjuárásar á stjórnarbyggingu í rússnesku aðskilnaðarhéraði, Transdniestria, í Moldavíu. Vakti árásin áhyggjur um að Rússar ætluðu að beita her sínum víðar í Evrópu en í Úkraínu.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …