Home / Fréttir / Þjóðverjar senda milliþunga skriðdreka til Úkraínu

Þjóðverjar senda milliþunga skriðdreka til Úkraínu

Æft með þýskum, milliþungum Marder skriðdreka.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Olaf Scholz Þýskalandskanslari ræddu saman fimmtudaginn 5. janúar. Að símtalinu loknu ákváðu þeir að senda milliþunga skriðdreka til Úkraínuhers.

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar verður kynnt föstudaginn 6. janúar. Talið er að hún nái til þess að Úkraínuher fái 50 Bradley vígdreka sem hluta af hernaðaraðstoð sem nemi 2,8 milljörðum dollara.

Þjóðverjar hafa ákveðið að láta Úkraínuher í té milliþunga Marder skriðdreka en þeir eru sambærilegir við frönsku AMX-10 RC drekana sem sendir verða í Úkraínu.

Með því að ákveða að senda milliþungu AMX-10 RC skriðdrekana miðvikudaginn 4. janúar reið Emmanuel Macron Frakklandsforseti fyrstur á vaðið með vígtól í þessum flokki að vestan til Úkraínu.

Þýska ríkisstjórnin sagði ekki hve marga Marder APC dreka hún mundi senda eða hvenær. Tilkynnt var að Þjóðverjar mundu þjálfa Úkraínumenn og kenna þeim að nota tækin.

Í þýsku tilkynningunni var vakin athygli að í yfirlýsingu Bandaríkjastjórnar um sendingu á Patriot gagneldflaugakerfum til Úkraínu segði: „Þjóðverjar munu ásamt Bandaríkjamönnum senda fleiri Patriot loftvarnakerfi til Úkraínu.“ Engar tímasetningar voru nefndar.

Þjóðverjar hafa nú þegar veitt Úkraínumönnum umtalsverðan hernaðarlegan stuðning, þar á meðal Gepard sjálfdrifnar loftvarnabyssur og fyrsta af fjórum IRIS-T flugskeytakerfum.

Schölz hefur þrátt fyrir þetta verið undir þrýstingi á heimavelli með kröfum um fleiri vopn, þar á meðal Marder drekana. Úkraínumenn og nokkrir þýskir þingmenn vilja að Þjóðverjar sendi þunga Leopar 2 skriðdreka til Úkraínu. Scholz segir að hann stigi slíkt skref ekki einn og ekkert annað ríki hafi sent Úkraínumönnum sambærilegt vopn.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …