
Frá og með 1. mars kemur nýtt vegabréf til sögunnar í Þýskalandi. Það er minna en eldra vegabréf, kápan er sveigjanlegri og fleiri litir en áður eru notaðir við gerð þess. Mikilvægastar eru breytingarnar sem augað skynjar ekki við fyrstu sýn. Þar er um að ræða hátæknilegar viðbætur sem greina má með sértækum aðferðum.
Með því að innleiða nýja vegabréfið vilja þýsk stjórnvöld vinna gegn misnotkun á þessum mikilvægu skilríkjum og herða baráttuna gegn hryðjuverkamönnum og öðrum sem nýta sér veikleika núverandi vegabréfa til að vega að öryggi almennra borgara og fara á svig við landamæravörslu.
Thomas de Maizière, innanríkisráðherra Þýskalands, kynnti nýja vegabréfið fyrir skömmu í Berlín og sagði að það gerði smyglurum á fólki og öðrum glæpamönnum erfiðara en áður að falsa persónuskilríki.
Í fréttum segir að nýja vegabréfið sé í ýmsu tilliti með háþróaðri vörn gegn fölsunum en evru-peningaseðlar.
Til að sjá það sem augað greinir ekki hjálparlaust þarf að bregða vegabréfinu undir sérstakt ljós eða horfa á það frá ákveðnu sjónarhorni. Það á til dæmis við um skjaldarmerki Þýskalands – örninn sem verður að bókstafnum D þegar haldið er á vegabréfinu á ákveðinn hátt.
Öryggisröndin hefur einnig verið endurnýjuð. Í nýja bréfinu hefur hún passanúmer og nafn eigandans.
Haldi menn vegabréfinu í últrafjólubláu ljósi sjást önnur teikn eins og Brandenborgarhliðið, frægt tákn Berlínarborgar.
Í Die Welt segir að enn sé þó mikil gloppa í öryggisvörninni. Það sé enn auðvelt að falsa skilríki sem afhent séu yfirvöldum í vegabréfaumsókn, til dæmis fæðingarvottorðið. Talið er að í Frakklandi einu sé allt að einni milljón manna með ný og gild vegabréf sem hafi að geyma rangar upplýsingar í blekkingarskyni.
Sá sem er með þýskt vegabréf getur ferðast til 177 landa án áritunar. Ekkert annað vegabréf veitir áritunarlausan aðgang að svo mörgum löndum. Næst er sænsk vegabréf sem opnar leið til 176 landa. Í kjölfarið sigla síðan fjölmörg Evrópuríki.
Frá og með árið 2014 máttu íslenskir ríkisborgarar ferðast til 165 landa án vegabréfsáritunar, var íslenska vegabréfið í 9. sæti á heimsvísu eftir fjölda landa sem ferðast má til án vegabréfsáritunar.
Í neðsta flokki er afganskt vegabréf sem veitir heimild til að ferðast til 25 landa án áritunar.
Evrópulögreglan (Europol) hefur sent frá sér viðvörun um að sífellt fleiri nýti sér fölsuð vegabréf. Þeir sem það gera eru ekki einvörðungu afbrotamenn því margt farandfólk notar fölsuð skilríki til að komast inn í Evrópu. Á árinu 2016 afhjúpaði Evrópulögreglan smiðjur fyrir fölsuð skilríki meðal annars í Grikklandi.
„Oft er um vel skipulagt samstarfsnet að ræða sem teygir sig yfir nokkur lönd,“ segir Robert Crepinko, yfirmaður deildar innan Evrópulögreglunnar gegn netglæpum, í viðtali við Die Welt.
Eftir að Túnisinn Anis Amri gerði árásina og drap 12 manns á jólamarkaði í Berlín 2016 hafa miklar umræður orðið í Þýskalandi um hvernig honum tókst að laumast inn í landið og út úr því yfuyfirr fjögur landamæri, fyrir utan að dveljast Í Þýskalandi án þess að brottvísun á honum yrði framkvæmd. Talið er að hann hafi að minnsta kosti brugðið sér í gervi 14 ólíkra einstaklinga.
Þegar útlendingayfirvöld í þýsku borginni Dortmund ræddu við hann árið 2016 var hann meðal annars spurður hvers vegna hann breytti um nafn og fæðingarland. Hann gaf mörg svör og kenndi túlki um að hann misskildi sig og segði rangt frá máli sínu.
Nú er ljóst að með því að bregða sér í svo margra manna líki tókst honum að sniðganga eftirlit yfirvalda og skjóta sér undan þvingaðri brottvísun.
Kunningi Amris var maður að nafni Bilel A. Þeir snæddu morgunverð saman daginn áður en Amris vann hryðjuverkið í Berlín. Bilel A. hefur brugðið sér í gervi að minnsta kosti 18 ólíkra einstaklinga í skýrslum og umsóknum til þýskra yfirvalda. Eitt sinn sagðist hann meira að segja ekki muna nöfn og heimilisfang foreldra sinna.
Bilel A. var fluttur frá Þýskalandi til Túnis í janúar 2017.
Einn liður í auknu eftirliti þýskra yfirvalda til að draga úr hættunni af því að menn segi rangt til nafns og framvísi fölsuðum skilríkjum er að starfsmenn við útlendingaeftirlit nýti lagaheimild til að rannsaka farsíma farandfólks í þeim tilgangi að auðvelda að greina hratt hver viðkomandi einstaklingur er í raun og veru.
Lagaheimild í þessa veru hefur verið í gildi frá árinu 2015. Hún hefur lítið verið notuð þar sem framkvæmdin hefur þótt vega sterkt að friðhelgi einkalífs viðkomandi. Til þessa hefur það meðal annars verið skilyrði að viðkomandi hælisleitandi veiti samþykki við leit í síma sínum. Líklegt er að þetta skilyrði verði afnumið.