
Frakkar hafa tekið forystu meðal 10 aðildarþjóða ESB sem vinna að mótun samstarfs í varnarmálum til að takast á við „nýjar ógnir“ utan þess skipulags á samstarfi í varnarmálum sem mótað hefur verið innan ESB og NATO. Þjóðverjar hafa fyrirvara á hve langt skuli farið á þessari braut af ótta við að dragast inn í deilur í fjarlægum löndum og við að samstarfið kunni að grafa undan ESB.
Varnarmálaráðherrar ríkjanna 10 komu saman í París miðvikudaginn 7. nóvember til að vinna að því sem á ensku er kallað European Intervention Initiative (EI2). Enska heitið er ekki gegnsætt en að baki því búa áform sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur kynnt um evrópskt átak í varnarmálum.
„Til að takast á við nýjar ógnir þarfnast Evrópa öflugra varna,“ sagði franska varnarmálaráðuneytið á Twitter eftir ráðherrafundinn og jafnframt að þátttökuríkin 10 hefðu skuldbundið sig í þessu skyni.
Markmiðið með EI2 er að koma á fót samstarfi sem auðveldar skjót sameiginleg, hernaðarleg viðbrögð þar á meðal í mannúðarskyni. Það vakir ekki fyrir þeim sem að hugmyndinni standa að komið verði á fót yfirþjóðlegum Evrópuher.
Þar sem ætlunin er að um verði að ræða samstarf ríkja utan ramma ESB og NATO hefur franska varnarmálaráðuneytið leitast við að draga úr áhyggjum þeirra sem telja að frumkvæðið kunni að veikja varnarsmálasamtarfið innan ESB og NATO. Segir ráðuneytið að ætlunin sé í raun að styrkja jafnframt innviði ESB og evrópsku stoðina í NATO.
Frakkar telja þátttöku Þjóðverja lykilþátt í þessu samstarfi en í Berlín hafa sérfræðingar og aðrir lýst efasemdum um framtakið. Þjóðverjar draga í efa réttmæti þess að standa utan ESB og NATO í þessu efni. Þeir hafa hins vegar ekki talið sér fært að hafna tilmælum Frakka í ljósi hefðbundinnar samstöðu Frakka og Þjóðverja sem forystuþjóða innan ESB.
Þá er þess minnst að Frakkar sendi herafla sinn oft til aðgerða í fjarlægum löndum og Þjóðverjar haldi að sér höndum að því leyti. Þýskur her sé ekki sendur til aðgerða erlendis nema að fengnu samþykki þýska þingsins. Þjóðverjar hafa því lækkað risið á tillögum Frakka til að geta tryggt sérstöðu sína meðal annars að þessu leyti.
Heimild: DW