Home / Fréttir / Þjóðverjar búa sig undir hernað gegn Ríki íslams

Þjóðverjar búa sig undir hernað gegn Ríki íslams

Urslula van der Leyen
Urslula von der Leyen

 

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, útilokar ekki að þýskir hermenn taki þátt í alþjóðlegum hernaðaraðgerðum gegn Ríki íslams í Sýrlandi við hlið manna úr sýrlenska stjórnarhernum án þess að í því felist samstarf eða stuðningur við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Rætt  er um að 1.200 þýskir hermenn verði sendir til Mið-Austurlanda fyrir lok þessa árs.

Varnarmálaráðherrann, flokkssystir Angelu Merkel Þýskalandskanslara í flokki kristilegra (CDU), sagði sunnudaginn 29. nóvember á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF: „Það er ljóst að  það er engin framtíð með Assad. Hins vegar má finna liðsafla innan hers Sýrlands sem er samstarfshæfur eins og reyndin hefur orðið í Írak þar sem skilað hefur árangri að þjálfa hersveitir heimamanna.“

Von der Leyen lagði áherslu á nauðsyn þess að finna leið til að brúa bilið frá Assad án þess að stjórnkerfi Sýrlands hryndi. „Það er rétt að ræða um her Sýrlands þegar ljóst er, eftir að þessi brúarsmíði er hafin, hvað verður um Assad. Þá verður að meta stöðuna að nýju.“

Til að sýna samstöðu með Frökkum eftir hryðjuverkaárásina hinn 13. nóvember í París hafa Þjóðverjar ákveðið að senda Tornado-eftirlitsflugvélar, eldsneytisvél og herskip til þátttöku í aðgerðunum gegn Ríki íslams. Þýska ríkisstjórnin og þingið í Berlín verða að samþykkja að hermenn verði sendir á vettvang.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakka, talaði föstudaginn 27. nóvember um að beita ætti „stjórnarher“ gegn Ríki íslams. Síðar voru orð ráðherrans skýrð á þann veg að þá fyrst yrði unnt að tala um „stjórnarher“ í Sýrlandi eftir að mynduð hefði verið þjóðstjórn í landinu.

Í síðustu viku var tilkynnt að Þjóðverjar mundu senda allt að 650 hermenn til Afríkuríkisins Malí til að aðstoða Frakka og auk þess yrðu fleiri þýskir sérfræðingar sendir til Norður-Íraks til að þjálfa menn í her Kúrda.

Ursula von der Leyen ritaði grein í þýska blaðið Bild mánudaginn 30. nóvember til að skýra stefnu sína. Þar lýsti hún markmiði hennar á þann veg að veikja bæri Ríki íslams, setja svigrúmi þess skorður, eyðileggja þjálfunarbúðir þess, hrekja liðsmenn úr einni borg eftir aðra og sanna að hryðjuverkasamtökin væru ekki ósigrandi.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …