Home / Fréttir / Þjóðrembusýning opnuð til að hampa ágæti Rússlands og hugsjónum Pútíns

Þjóðrembusýning opnuð til að hampa ágæti Rússlands og hugsjónum Pútíns

Frá sýningarsvæðinu í Moskvu sem vekur minningar um Stalín.

Vesturlöndum er ekki gert hátt undir höfði á sýningu sem rússnesk stjórnvöld opnuðu í Moskvu laugardaginn 4. nóvember til að hampa eigin þjóðarafrekum. Sýningin verður opin næstu mánuði í aðdraganda forsetakosninga í mars 2024, talið er fullvíst að Vladimir Pútín forseti bjóði sig þá fram til endurkjörs.

Forsetinn ákvað í mars 2023 að efnt skyldi til sýningarinnar og sumir álitsgjafar telja að með henni sé reynt að draga fram höfuðdrætti hugsjónanna sem eigi að stuðla að kosningasigri hans. Fyrir setningarhátíð sýningarinnar töldu blaðamenn að Pútín kynni að nota tækifærið og tilkynna þar framboð sitt. Hann lét hins vegar ekki sjá sig.

Pútín hefur verið forseti eða forsætisráðherra síðan árið 2000. Verði hann endurkjörinn getur hann setið til ársins 2030.

Sýningin er á VDNK-svæðinu, risastóru sýningarsvæði í norðurhluta Moskvu. Einræðisherrann Jósep Stalín lét reisa margbrotna skála í sovét-gotneskum stíl á svæðinu. Í hugum margra eru skálarnir því tengdir minningum um sovéttímann. Pútín er ekki óljúft að vekja slíkar minningar, þær falla að viðleitni hans til að treysta stöðu Rússlands sem risaveldis.

Þema sýningarinnar er Rússland sem land fólks af ólíku þjóðerni með ólíka menningu sem sameinast í anda þjóðlegrar reisnar. Hvert hérað í Rússlandi fær sinn stað á sýningunni og auk þess héruðin Luhansk og Donetsk í Úkraínu sem Rússar segjast hafa innlimað í land sitt. Þá er einnig mikil áhersla lögð á að sýna rússneskan iðnað, menntun og tækni.

Undirtónninn er að Rússar berjist fyrir menningarheim sinn. Þar hljómar endurómur af opinberum boðskap um nauðsyn þess að gripa til vopna og ráðast inn í Úkraínu í febrúar 2022.

„Allar ögranir og árásaraðgerðir gegn Rússlandi eru dæmdar til að mistakast. Ástæðan fyrir því er að við erum ein þjóð tengd með sameiginlegri sögu, bræðraböndum vináttu og gagnkvæms skilnings,“ segir Putín í yfirlýsingu í tilefni af því að sýningin var opnuð.

Nikolai Patrushev, stjórnandi þjóðaröryggisráðsins, tók í sama streng í ræðu á upphafsdegi sýningarinnar.

„Andstætt því sem gerst hefur á Vesturlöndum ræður í Rússlandi siðmenning sem reist er á þjóðlegu fullveldi, gagnkvæmri virðingu, sambúðarjafnræði, hefðbundum fjölskyldugildum, varðstöðu um trúarlegan grunn og rétt trúaðra fyrir utan að hvíla á almennt viðurkenndum reglum um siðgæði, siðfræði og félagslega hegðun.“

Patrushev áréttaði einnig að sögulega hefðu Rússar ávallt brugðið fæti fyrir drottnunaráform vestursins.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …