
H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sagði miðvikudaginn 28. júní að gagnrýni á forsetann fyrir að hafa ekki minnst á skuldbindingar Bandaríkjanna samkvæmt 5. gr. Atlantshafssáttmálans í ræðu hjá NATO í maí væri „tilbúin deila“.
„Forsetinn stendur heilshugar að sáttmála okkar,“ sagði McMaster á ársfundi hugveitunnar Center for a New American Security (CNAS). „Við undirrituðum sáttmálann og hann sagði að við mundum aldrei yfirgefa þá sem standa með okkur og hann sagði afdráttarlaust allt nema nákvæmlega þessa setningu sem allir biðu eftir af einhverri mjög undarlegri ástæðu. Í huga forsetans hefur aldrei verið neinn vafi og ekki í huga neins, ekki neinna bandamanna okkar, um að standa beri við 5. greinina.“
Þegar Trump sat ríkisoddvitafund NATO-ríkjanna í maí og heimsótti nýjar höfuðstöðvar bandalagsins flutti hann ræðu án þess að nefna 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt ríki væri árás á þau öll. Eftir að ræðan var flutt sögðu fjölmiðlar að þetta hefði vakið grunsemdir meðal einhverra ráðamanna innan NATO um að efast mætti um hollustu forsetans við bandalagið. Af hálfu starfsmanna forsetans hefur verið slegið á allar slíkar efasemdir.
Í ræðu sinni hjá CNAS sagði H.R. McMaster að forsetinn gerði sér betur grein fyrir því en nokkur annar að styrkur bandalags fælist í framlagi hvers og eins til þess. NATO mundi að sjálfsögðu styrkjast yrðu bandalagsríkin við hvatningu Trumps um að auka framlag sitt til þess.
Trump hefur margsinnis áréttað nauðsyn þess að hvert aðildarríki NATO standi við fyrirheit sitt um að leggja að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála.
McMaster sagði að vissulega gerði Trump af umhyggjusemi harðar kröfur til bandamanna sinna. Michele Flournoy, forstjóri og annar stofnanda CNAS, taldi að Trump gengi einum of hart fram gagnvart bandamönnunum. Þeim þætti nóg um umhyggju hans. „Þeir finna fyrir hörkunni en ekki umhyggjuseminni,“ sagði Flournoy en á sínum tíma var rætt um hana sem hugsanlegan varnarmálaráðherra í stjórn Hillary Clinton.
McMaster lýsti sig ósammála þessari skoðun, hann yrði ekki var við „neinn kvíða meðal bandamanna okkar“ og bætti við:
„Við erum ekki sammála um allt en við erum þó sammála um 95% af því sem til umræðu er og ég get að minnsta kosti talað fyrir munn þeirra sem starfa við það sama og ég, margir láta í ljós þakklæti – þakklæti fyrir áhersluna á að deila ábyrgð og deila byrðum.“