
Skýrsla þjóðaröryggisráðs um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var birt í fyrsta skipti fimmtudaginn 1. nóvember 2018.
Skýrslan var unnin í samvinnu við þau ráðuneyti sem bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar hvert á sínu málefnasviði og er reist á greinargerðum ráðuneytanna. Gerð er grein fyrir því hvernig unnið hafi verið að framkvæmd stefnunnar, lagt mat á þann árangur sem hafi verið náð og komið á framfæri nýjum upplýsingum sem varðar framgang markmiða sem sett eru. Þá er gerð grein fyrir nauðsynlegum umbótum á næstu 12 mánuðum til þess að ná bættum árangri.
Hér er birtur meginkafli þess sem segir í skýrslunni um þátttökuna í Atlantsbandalaginu (NATO):
Á árinu 2017 var sérfræðingum á vegum Íslands er störfuðu hjá Atlantshafsbandalaginu að borgaralegum verkefnum fjölgað jafnt og þétt, úr fjórum í upphafi árs 2016 í níu í árslok 2017. Stefnt er að því að á tímabilinu 2018–2019 verði að jafnaði 11 íslenskir sérfræðingar í verkefnum hjá bandalaginu, en þeir starfa m.a. í Eystrasaltsríkjunum, Afganistan, Georgíu og í höfuðstöðvum bandalagsins. Með því að kosta sérfræðinga til starfa er stutt við starf bandalagsins og að íslenskir starfsmenn öðlist þekkingu, reynslu og innsýn sem nýtist í verkefnum, æfingum og stefnumörkun heima fyrir. Þannig eykst geta og sérfræðiþekking í öryggis- og varnarmálum hér á landi.
Enn fremur hafa sérfræðingar frá sprengjudeild Landhelgisgæslu Íslands farið til þjálfunarverkefna í Jórdaníu og nú nýlega í Írak í samstarfi við vinaþjóðir. Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sinnir reglulega sprengjueyðingu, friðargæslu og kennslu í sprengjueyðingu á vegum Atlantshafsbandalagsins víðs vegar í heiminum. Þjálfun og endurmenntun sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar í að eyða sprengjum fer fram í bandalagsríkjum, t.d. hjá danska og breska hernum, í samræmi við ýtrustu NATO-staðla. Sprengjudeildin gengst árlega fyrir NATO-æfingu hér á landi, Northern Challenge, og fer þátttaka í þeirri æfingu stöðugt vaxandi og er orðin slík að færri komast að en vilja.
Haldnar voru tvær varnartengdar æfingar Atlantshafsbandalagsins á og við Ísland árið 2017: Dynamic Mongoose, kafbátaeftirlitsleitaræfing með 11 bandalagsríkjum, og Northern Challenge, sprengjueyðingaræfing með 15 ríkjum. Einnig var hafinn undirbúningur fyrir svokallaða Trident Juncture-æfingu sem fer fram samtímis í Noregi og á Íslandi í október og nóvember 2018. Lagðir voru fjármunir í tvo styrktarsjóði bandalagsins á liðnu ári: 10 m.kr. framlag í sjóð vegna sprengjueyðingarverkefna í Írak og fimm m.kr. framlag í sjóð vegna framkvæmdar á aðgerðaáætlun í tengslum við ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
Árleg heildstæð úttekt á varnar- og viðbúnaðargetu Íslands var gerð en hún felur í sér ítarlegt samráð við alþjóðastarfslið Atlantshafsbandalagsins á framlögum og þátttöku Íslands í störfum bandalagsins. Gerð er sambærileg úttekt á stöðu allra bandalagsríkja og frá árinu 2018 munu ríkin skila yfirliti og áætlun um þátttöku sína og árleg framlög.
Áherslur og hagsmunagæsla Íslands vegna endurskipulagningar herstjórnarkerfis Atlantshafsbandalagsins hafa miðað að því að einfalda boðleiðir og leggja aukna áherslu á öryggismál á Norður-Atlantshafi. Eins og áður var vísað til hefur vinnan á þessu sviði m.a. leitt til þess að sett verður upp ný herstjórn í Norfolk með Norður- Atlantshafið, öryggi og samgöngur í forgrunni.
Ísland tók þátt í virku samráði við alþjóðastarfslið Atlantshafsbandalagsins vegna úttekta á stöðu almannavarna og netvarna í bandalagsríkjum. Ísland skilaði ítarlegri samantekt og upplýsingum um hvort tveggja. Samráð íslenskra stjórnvalda við flotastjórn Atlantshafsbandalagsins var aukið með heimsóknum og stefnt er að því að kosta íslenskan sérfræðing til starfa hjá flotastjórninni.
Landhelgisgæsla Íslands fer með framkvæmd varnartengdra verkefna, sbr. samning milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra um að ríkislögreglustjóri (RLS) og Landhelgisgæsla Íslands annist tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum, nr. 34/2008.
Framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins er í föstum farvegi og samkvæmt áætlun bandalagsins. Ísland sér um framkvæmd loftrýmiseftirlitsins en það er hluti af samþættu loftrýmiseftirliti bandalagsins. Verkefnið er unnið af starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands undir stjórn stjórnstöðvar bandalagsins í Uedem í Þýskalandi. Samtals hafa níu aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins lagt til orrustuþotur og liðsafla vegna loftrýmisgæslu hér við land.
Umtalsverð endurnýjun og uppbygging hefur átt sér stað á öryggis- og varnarbúnaðinum hér á landi, kerfi hafa verið endurnýjuð eða eru í endurnýjun og viðhald mannvirkja aukið. Endurnýjun kerfisbúnaðar er hluti af sameiginlegri endurnýjun sem fram fer í öllum aðildarríkjunum í Evrópu. Áætlað er að uppbyggingin standi til ársins 2022. Stærstu verkefnin eru endurnýjun loftvarnakerfisins, stjórnstöðvarinnar og uppfærsla á ratsjárkerfunum.
Verkefni tengd gistiríkjastuðningi hafa aukist verulega á undanförnum árum. Þar má nefna stuðning við æfingar, millilendingar og eftirlitsflugvélar.
Eftir annasama uppbyggingu og endurskipulagningu rekstrar frá brottför varnarliðsins árið 2006 er nú lögð aukin áhersla á þjálfun og endurmenntun starfsmanna. Starfsmenn varnarmálasviðs Landhelgisgæslu Íslands búa yfir víðtækri sérfræðiþekkingu sem einnig hefur komið Atlantshafsbandalaginu og aðildarþjóðunum að gagni. Varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar tekur virkan þátt í störfum stofnana og undirnefnda Atlantshafsbandalagsins.
Árangur
Þátttaka í störfum Atlantshafsbandalagsins hefur aukist frá því sem áður var og hafa mörg af áherslumálum Íslands fengið meira vægi í starfi bandalagsins sem birtist m.a.í vaxandi vitund um mikilvægi Norður-Atlantshafsins fyrir öryggi Evrópu og Norður-Ameríku og umræðu um mikilvægi jafnréttismála.
Ísland hefur undanfarin ár markað sér mikilvæga stöðu á vettvangi bandalagsins sem áhersluríki á sviði jafnréttismála og talsmaður heildstæðrar nálgunar og uppbyggingar þjálfunar og innviða í veikburða ríkjum.
Uppbygging hér á landi hefur síðastliðin ár aukið verulega getu Íslands til að taka þátt í verkefnum Atlantshafsbandalagsins og styðja við aðildarríkin varðandi verkefni á Norður-Atlantshafinu. Endurnýjun kerfa hefur gengið betur hér á landi en í flestum öðrum ríkjum bandalagsins, ekki síst vegna hæfni og reynslu sérfræðinga sem að verkefnunum koma hér á landi.
Nýjar upplýsingar
Gera má ráð fyrir að áfram verið lögð áhersla á að öll bandalagsríkin leggi meira af mörkum til öryggis- og varnarmála, en þau hafa skuldbundið sig til að stefna í átt að auknum varnarframlögum og fjárfestingum, með það fyrir augum að ná 2% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2024. Öll bandalagsríkin hafa stöðvað niðurskurð og nær öll hafa þau aukið sín framlög, þó mismikið.
Ísland, eins og önnur bandalagsríki, mun áfram leggja fé af mörkum til sameiginlegra verkefna, málefna og stuðnings en með þeim formerkjum að herlaus þjóð heldur úti afmörkuðum varnarviðbúnaði og fyrst og fremst í tengslum við samvinnu með Atlantshafsbandalaginu og á grunni tvíhliða varnarsamnings.
Aukin framlög íslenska ríkisins og Atlantshafsbandalagsins til framkvæmda hér á landi hafa aukið öryggis- og varnarviðbúnaðargetu hér á landi. Má þar t.d. nefna upplýsingastreymi í rauntíma og bætt rauntímastöðumynd fyrir Norður-Atlantshafið.
Nauðsynlegar umbætur
Mikilvægt er að festa í sessi fjárveitingar til virkari þátttöku í störfum Atlantshafsbandalagsins til lengri tíma með hæfilegri aukningu frá ári til árs til að hægt sé að marka langtímastefnu og byggja upp sérfræðiþekkingu á þeim sviðum þar sem Ísland með getur með borgaralegu framlagi lagt sitt af mörkum.
Aukna áherslu mætti leggja á málefni þar sem sérþekking Íslands getur nýst bandalaginu og er virðisauki fyrir íslenska sérfræðinga að taka þátt, einkum á sviði almannavarna, netvarna og viðnámsgetu.