Home / Fréttir / Þingmaður danskra jafnaðarmanna óttast samhliða-samfélag í Danmörku

Þingmaður danskra jafnaðarmanna óttast samhliða-samfélag í Danmörku

 

Lars Aslan Rasmussen
Lars Aslan Rasmussen

 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti fyrsta nýársávarp sitt frá Bessastöðum 1. janúar 2017. Þar sagð hann meðal annars:

„ Síðar í þessum mánuði höldum við hjónin í opinbera heimsókn til Danmerkur. Þar hafa innflytjendur sett sinn svip á samfélagið, við Íslendingar þar með taldir. Mörgum hefur gengið vel að laga sig að dönskum reglum og siðum, öðrum ekki. Um þau efni fjallaði Margrét Danadrottning í nýársávarpi sínu fyrir réttum áratug, laust eftir Múhameðskrísuna svonefndu sem blossaði upp eftir að Jótlandspósturinn birti skopteikningar af Múhameð spámanni. „Enginn skyldi vænta þess,“ sagði drottning, „að þeir sem flytja til nýrra heimkynna, til framandi lands, skuli þá þegar varpa fyrir róða allri sinni arfleifð.“ Um leið minnti hún þó á að borgararnir nýju yrðu að virða lög og gildi síns nýja samfélags. Þetta eru skynsamleg sjónarmið.“

Hver hefur þróunin orðið í Danmörku á þeim áratug sem liðin eru frá því að Margrét drottning flutti áramótaávarpið sem Guðni Th. nefnd? Ekki góð ef marka má grein sem Lars Aslan Rasmussen, þingmaður jafnaðarmanna í Danmörku, birti á dönsku vefsíðunni Altinget.dk 1. janúar 2017. Þar varar hann við hættunni af að til verði „samhliða-samfélag“ í Danmörku.

Hann segir viðurstyggilegt þegar unnin séu hryðjuverk í nafni íslams. Það hafi gerst oft á árinu 2016 í Brussel, Bæjarlandi, Nice, Istanbúl, Berlín og víðar. Auk þess komi öryggis- og leyniþjónustur í veg fyrir mörg hryðjuverk í Danmörku eins og annars staðar.

Menn verði að vera heiðarlegir og segja að aldrei muni reynast unnt að verjast trúarlegum öfgamönnum, þeim kunni enn á ný að takast að aka á fólk með vöruflutningabílum eða sprengja sjálfa sig til að myrða aðra í leiðinni.

Við slíku verði lögregla og aðrar öryggisstofnanir að verjast eins og öðrum glæpaverkum. Þótt slík ódæði séu vissulega óttaleg sé annað hins vegar alvarlegra. Hann segir:

„Margar athuganir sýna okkur að margir eru sammála íslamistunum.

Ég ætla að nefnda nokkrar ógnvekjandi tölur.

Í fyrra var gerð víðtæk, marktæk rannsókn á afstöðu múslima í Bretlandi til ýmissa málefna, niðurstaðan var þessi:

39% telja að konur eigi ætíð að fara að fyrirmælum eiginmanna sinna.

52% eru andvígir lagasetningu sem heimila samkynhneigð.

23% telja að sharía-lög múslima eigi að ýta breskum lögum til hliðar.

Hér er um að ræða einstaklinga sem margir fæddust í Bretlandi og hafa alist upp í landinu, þeir búa í lýðræðisríki með öllum réttindum til frelsis sem í því felst. Þrátt fyrir þetta telur meiri en helmingurinn að refsa beri samkynhneigðum og fjórum af sex er alveg sama um það jafnrétti sem þróast hefur fyrir atbeina margra kynslóða.

Fjórðungurinn kýs beinlínis að innleidd verði yfir sig fyrirlitleg sharia-lög í anda miðalda.

Tölur um stöðuna í Danmörku eru jafnógnvekjandi. Í fyrra sýndi svipuð könnun að tæplega helmingur múslima sem búa hér telur að stjórnarskráin eigi að móta rammann um alla lagasetningu en hinn helmingurinn taldi æskilegt að lög mætti annaðhvort reisa á kóraninum eða blöndu af stjórnarskránni og kóraninum.

Að svo margir telji að ævaforn bók eigi að móta lagasetningu í Danmörku sýnir rosalegt sambúðarvandamál – í Danmörku og á Vesturlöndum.

Mesta áhyggjuefnið er þó að allar rannsóknir sýna að það er einkum meðal yngri kynslóða sem trúarhitinn eykst. Þetta sjáum við einnig greinilega í Danmörku þegar öfgamönnunum í Hizb ut-Tahrir tekst að fylla Nørrebrohallen með þúsundum manna, þar sem meðalaldurinn er varla mikið yfir 25 ár.

Vert er að líta þessa þróun mjög alvarlegum augum. Ástæðulaust er að þegja um hana eða gera lítið úr henni af ótta við að rasistaspjaldinu verði sveiflað. Þetta snertir einfaldlega ekki rasisma á neinn hátt.

Raunar eru fórnarlömb ísamlistanna einkum hófsamir múslimar sem kjósa að laga líf sitt að vestrænum gildum. Íslamistarnir úthrópa þá sem svikara og þeir eru beittir ofurþungum félagslegum þrýstingi.

Ótti minn þegar ég skoða þessar tölur snýst ekki um að þær jafngildi meiri ógn á Vesturlöndum. Þær benda hins vegar til þess að við stöndum frammi fyrir sundruðu samhliða-samfélagi þar sem önnur viðmið verði sett og þar sem íslamistar geti í ríkara mæli ráðið dagskránni í skólum, stofnunum, á götum úti og á þeim svæðum þar sem þeir eru í meirihluta. Til stórhættu fyrir alla sem eru ekki sammála þeim.

Við getum aðeins snúist gegn þessari þróun með því að gera ekki lítið úr vandanum sem leiðir af vaxandi stuðningi við and-lýðræðisleg sjónarmið. Við eigum ekki heldur nokkru sinni að láta undan íslamistum.“

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …