Home / Fréttir / Þingforseti leggur embætti að veði vegna stuðnings við Úkraínu

Þingforseti leggur embætti að veði vegna stuðnings við Úkraínu

Mike Jackson. forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

 

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti laugardaginn 20. apríl fjárhagsaðstoð til Úkraínu, Ísraels og Tævans sem nemur alls 95 milljörðum dollara.

Í marga mánuði hafa repúblikanar í fulltrúadeildinni staðið í vegi fyrir því að þar yrðu greidd atkvæði um stuðning við Úkraínu. Á sérstökum þingfundi laugardaginn 20. apríl tóku demókratar og hluti repúblikana í fulltrúadeildinni höndum saman og samþykktu að 95 milljarðardollara aðstoð til Úkraínu, Ísraela og Tævans. Trumpistar í hópi repúblikana greiddu atkvæði gegn aðstoð við Úkraínu. Eftir atkvæðagreiðsluna glumdi við lófatak í þingsalnum og fána Úkraínu var veifað.

Um þrískipt frumvarp var að ræða: 61 milljarður fer til Úkraínu, 26 milljarðar til Ísraels í mannúðarskyni til aðstoðar almennum borgurum á átakasvæðum, þ. e. Gaza, og 8 milljarðar til Indó-Kyrrahafssvæðisins, einkum Tævans.

Aðstoðin við Úkraínu var samþykkt með 311 atkvæðum gegn 112, meirihluti repúblikana í þinginu greiddi atkvæði gegn en minnihluti þeirra og demókratar tryggðu afgreiðslu málsins. Aðstoðin við Ísrael var samþykkt með 366 atkvæðum gegn 58 og við Tævan með 385 atkvæðum gegn 34. Við afgreiðslu aðstoðarinnar við Úkraínu var gerð sú málamiðlun við repúblikana, sem eiga meirihluta í fulltrúadeildinni, að Úkraínumönnum er fræðilega skylt að endurgreiða um 10 milljarða af stuðningnum.

Þá var einnig veitt heimild til að bjóða til sölu hlutabréf í eigu rússneska ríkisins sem hafa verið fryst í refsingarskyni eftir innrásina í Úkraínu. Þá fara einnig frá þingdeildinni til öldungadeildarinnar frumvörp um frekari refsiaðgerðir gegn Íran og um skyldu kínversks eiganda TikTok til að selja eignarhlut sinn.

Málin fara nú frá fulltrúadeildinni til öldungadeildar Bandaríkjaþings og þar verða þau borin undir atkvæði þriðjudaginn 23. apríl. Joe Biden forseti ritar síðan undir lögin og öðlast þau þá gildi. Í yfirlýsingu Bidens frá 20. apríl hvetur hann öldungadeildina til að hraða afgreiðslu málsins svo senda megi vopn og tæki til Úkraínu sem fyrst.

Það gerist ekki oft að þingmenn beggja flokka taki höndum saman á Bandaríkjaþingi til að tryggja framgang mála. Forseti fulltrúadeildarinnar, repúblikaninn Mike Johnson, réð úrslitum um gang málsins með því að snúast gegn róttækasta arminum í eigin þingflokki og greiða atkvæði með aðstoð við Úkraínu ásamt með demókrötum. „Mín sýn er að gera það sem er rétt og taka því sem verða vill,“ sagði Mike Johnson miðvikudaginn 17. apríl „nú er ögurstund í alþjóðamálum, við erum undir augliti sögunnar.“

Einangrunarsinnar í hópi repúblikana, samherjar Donalds Trumps, hafa mánuðum saman hindrað framgang tillagna um aðstoð við Úkraínu. Þessum fámenna hópi þingmanna tókst að neyða flokksbróður sinn Kevin McCarthy til að segja af sér sem forseti fulltrúadeildarinnar. Hópurinn hefur síðan nýtt sér hve meirihlutinn repúblikana í deildinni er lítill til að taka aðstoðina við Úkraínu í gíslingu þar og hafna afgreiðslu hennar. Fyrst krafðist hópurinn að tekið yrði tillit til sjónarmiða hans varðandi vörslu á landamærum Mexíkó. Þegar hann fékk sínu framgengt í því efni snerist hópnum hugur og neitaði enn að styðja aðstoðina við Úkraínu.

Mike Johnson, þingmaður fyrir Louisiana, var lítt þekktur, róttækur Trumpisti, þegar hann var hafinn upp í sæti forseta fulltrúadeildarinnar. Hann hafði lagt sitt af mörkum til að grafa undan lögmæti forsetakosninganna í nóvember 2020 eins og aðrir Trumpistar og var jafnan andvígur aðstoð við Úkraínu þegar greidd voru atkvæði um hana.

Í franska blaðinu Le Figaro er bent á að Mike Johnson sé kristinn íhaldsmaður og er sinnaskiptum hans gagnvart stuðningi við Úkraínu líkt við Damaskusferð Páls postula sem hætti ofsóknum í garð kristinna manna og hóf að útbreiða kristni þegar hann sá ljósið á leið sinni til Damaskus. Johnson hafi sem þingforseti séð sífellt meira af gögnum frá leyniþjónustum Bandaríkjanna og áttað sig á hve aðstoð Bandaríkjamanna við Úkraínu skipti miklu og hve mikil hræsni fólst í málflutningi andstæðinga hennar.

„Ég tel að Xi, Vladimir Pútin og Íran myndi raunverulegan öxul illskunnar,“ sagði Mike Johnsons, væri Pútin ekki stöðvaður í Úkraínu myndi hann „halda áfram sókn sinni í Evrópu“ og ógna Balkanlöndunum, Póllandi og öðrum bandalagsríkjum í NATO. „Og í hreinskilni sagt vil ég frekar senda skotfæri til Úkraínu en bandaríska hermenn,“ sagði Johnson, „sonur minn er að fara í Háskóla flotans næsta haust. Í mínum augum eins og fjölda annarra bandarískra fjölskyldna er þetta enginn leikur, ekkert sem menn gera sér til gamans.“ Hann sagðist tilbúinn til að taka persónulega áhættu vegna þessa, menn yrðu gera það sem þeir teldu rétt, sagan myndi síðan fella sinn dóm.

Í bandarískum fjölmiðlum er bent á að Mike Johnson sé baptisti frá Louisiana og ef til vill hafi það haft áhrif á hann að fá fréttir um hve Rússar hafi farið illa með presta babtista í Úkraínu, pyntað þá af mikilli grimmd og sakað um að vera bandaríska njósnara. „Í huga Mikes Johnsons snýst þetta um trú. Hann baðst fyrir. Hann sagði mér það,“ segir flokksbróðir hans Ralph Norman.

Marjorie Taylor Greene, fulltrúadeildarþingmaður repúblikana frá Georgíu og eldheit MAGA-baráttukona (MAGA: Make America Great Again – slagorð Trumps) segist ætla að berjast gegn Mike Johnson og koma honum úr stóli forseta fulltrúadeildarinnar. Hún segir hann ekki aðeins flokkssvikara heldur landráðamann.

Í Washington kalla sumir Majorie Taylor Greene: Moskvu-Majorie. Málflutningur hennar sé svo hliðhollur Pútin. Hún sagði nýlega í hlaðvarpinu War Room að Rússar verndi kristindóminn. Skipar hún sér á þann væng sem telur réttmætt að ljá Pútin stuðning í nafni kristindómsins.

Mike Johnson heimsótti Donald Trump í Flórída föstudaginn 12. apríl og greindi honum frá því að hann hefði breytt um afstöðu til Úkraínu. Þegar þetta er skrifað hefur Trump ekkert sagt um atkvæðagreiðsluna 20. apríl. Áður en þingmenn gengu til atkvæða birti Trump langt mál á samfélagssíðu sinni um að Evrópumenn ættu að leggja Úkraínumönnum meira lið eins og hann hefur gert áður. Fréttaskýrendur hafa hins vegar staldrað við þessa setningu:

„Afl Úkraínu og tilvist ætti að skipta miklu fyrir Evrópu en skiptir okkur einnig miklu.“

Í Berlingske eru orðin hér fyrir ofan einnig feitletruð og sagt að þau lýsi greinilegri breytingu á afstöðu Trumps til stríðsins – þótt hún sé aukasetning í framhaldi af gamalkunnri gagnrýni Trumps á Evrópu. Telur blaðið líklegt að þarna gæti áhrifa af heimsókn Johnsons til Trumps.

Hvort fáeinum repúblikönum undir forystu Majorie Taylor Greene tekst að hrekja Mike Johnson úr forsetastóli fulltrúadeildarinnar er mjög undir Trump komið. Telji hann hjaðningavíg innan þingflokks repúblikana sér til framdráttar ýtir hann undir þau, ef ekki situr Mike Johnson áfram og ásýnd repúblikana er breytt.

 

Heimild: Le Figaro – Berlingske

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …